Neytendur

Shopi­fy kemur í veg fyrir brot á réttindum neyt­enda

Bjarki Sigurðsson skrifar
Shopify hefur með þessu skuldbundið sig til þess að koma í veg fyrir brot á réttindum neytenda.
Shopify hefur með þessu skuldbundið sig til þess að koma í veg fyrir brot á réttindum neytenda. Getty/Sean Gallup

Shopify hefur samþykkt að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir brot á réttindum neytenda. Með samþykktinni er verið að reyna að koma í veg fyrir svokölluð „drop shipping-svindl“ sem varð gífurlega algengt í Covid-19 heimsfaraldrinum.

Shopify er þjónusta sem gerir söluaðilum kleift að setja upp vefverslun á vefsíðu sinni með auðveldum hætti. Þá býður Shopify einnig upp á vefhýsingu og aðstoð við „drop shipping“.

Drop shipping virkar þannig að fyrirtæki geta selt vöru sem þeir eru ekki með í höndunum. Pantir þú vöru frá fyrirtæki sem notast við drop shipping áframsendir fyrirtækið pöntun þína til annars fyrirtækis eða framleiðanda sem er með vöruna. Varan er síðan send til fyrirtækisins sem þú verslaðir við og þaðan áframsend til þín. 

Í Covid-19 varð það algengt að svindlarar stofnuðu vefsíður sem buðu upp á drop shipping. Fólk pantaði vörur af vefsíðum svindlara sem til dæmis slepptu því að gera grein fyrir háum sendingarkostnaði eða öðrum viðbótargjöldum. Þá gat sendingartími verið óralangur og hvergi sjáanlegur á vefsíðu svindlara.

Með nýju samþykktinni sem fjallað er um á vef Neytendastofu er reynt að koma í veg fyrir þetta, meðal annars með því að fá notendur Shopify til að birta upplýsingar um sig. Þá verður neytendayfirvöldum gert kleift að nálgast upplýsingar um þá seljendur sem eru innan Evrópusambandsins eða Evrópska efnahagssvæðisins.

Þá hefur Shopify skuldbundið sig til að setja upp hratt og skilvirkt tilkynningarkerfi fyrir neytendayfirvöld gegn seljendum sem viðhafa ólögmæta viðskiptahætti í gegnum vefverslanir sem hýstar eru af Shopify.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×