Erlent

Klæddust kven­manns­fötum, settu á sig hár­kollu og rændu tugi lestar­far­þega

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Þjófarnir stálu ýmsu í lestum á leið til þriggja áfangastaða, Parísar, Marseille og Genf. Mynd tengist frétt ekki beint.
Þjófarnir stálu ýmsu í lestum á leið til þriggja áfangastaða, Parísar, Marseille og Genf. Mynd tengist frétt ekki beint. Getty/Andrew Holt

Meðlimir í frönsku glæpagengi eru sagðir hafa klæðst kvenmansfatnaði, sett á sig hárkollur og rænt í það minnsta 170 farþega í fyrsta farrými lesta í Frakklandi. Lögreglan í Marseille fann þýfið og reynir nú að finna réttmætu eigendur þess.

Fórnarlömb mannanna koma alls staðar að en úr að virði sjötíu þúsund evra eða rúmlega tíu milljóna íslenskra króna sem fannst meðal þýfisins var í eigu manns frá San Fransisco. Úrinu hafi verið rænt þegar hann var á leiðinni á Cannes kvikmyndahátíðina árið 2019. Þetta kemur fram í umfjöllun Guardian.

Þjófarnir eru sagðir vera karlmenn á fimmtugs- og sextugsaldri frá Marseille og Nice. Þeir stunduðu þjófnaðinn í lestum á leið frá París til Nice, París til Marseille og Lyon til Genfar.

Starfsemi mannanna er sögð hafa verið mjög skipulögð og hafi dulbúinn þjófur komið sér fyrir við hlið farþeganna í lestunum ásamt tveimur vitorðsmönnum sínum. Þeir hafi síðan tekið farangur sem lá eftirlitslaus ásamt veskjum og slíku og stigið frá borði á næstu stoppistöð.

Lögreglan fann þýfi mannanna í Marseille en meðal þess var allskyns farangur, myndavélabúnaður, hundruðir sólgleraugna og reiðufé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×