Veiði

Zeldan er einföld en gjöful fluga

Karl Lúðvíksson skrifar
Flugan Zelda
Flugan Zelda

Það er ansi merkilegt viðfangsefni að finna út því við bakkann hvað laxinn er að taka þá stundina og það fá margir valkvíða yfir því að opna fluguboxin.

Svo kemur upp sú staða að það er kannski búið að fara í gegnum margar flugur en ekkert virkar. Laxinn stekkur bara í ánni en tekur ekki neitt. Við ákveðnar aðstæður er eins og laxinn vilji bara ekkert, eða réttarara sagt næstum því ekkert.

Ein er sú fluga sem undirritaður hefur notað með ansi góðum árangri undanfarin ár einmitt þegar allt virðist klikka en það er Zeldan. Þessi fluga er lygilega einföld hnýting en samt ekki því það sem gerir hana veiðna er mesta vesenið við hnýtinguna. Þetta er í rauninni þétt vafinn búkur með kúluhaus og fálmurum en flugan sú arna kemur í nokkrum útfærslum og stærðum. Það sem hefur gert hana að leynivopni í mínum veiðiferðum er að á köldum dögum þegar laxinn liggur niðri er Zeldan fljót niður í fiskinn, er nógu lítil til að raska ekki hylnum og svo toppar hún það með að vera bara fanta veiðin.

Þegar ég heyrði fyrst af Zeldunni var hún sveipuð dulúð en afar fáir höfði fengið að sjá þessa flugu hjá höfundi hennar, Kjartani Antonssyni sem heldur meðal annars úti Facebook síðunni Zeldan.  Það var svo fyrir fáum árum að hann gerði þessa flugu opinbera og síðan þá eru sífellt fleiri að komast að því hvað þessi fallega og einfalda hnýting er veiðin, og það við allar aðstæður. Undirritaður var að koma úr tveggja daga veiði þar sem sex laxar veiddust á stöngina, þar af fjórir á Zelduna eftir að allt annað hafði verið prófað. Ég viðurkenni það bara strax að ég hnýtti hana undir með lítilli von þar sem það var hvöss og ísköld norðanátt í þeim veiðitúr og ekkert að frétta af töku hjá neinum í ánni. 

Undir fór Zeldan og niðurstaðan var fjórir á land við aðstæður sem ég andvarpa yfir að þurfa að veiða í. Nú er ég að fara í annan veiðitúr á næstunni og ég held svei mér þá að í þetta skiptið verði hún uppfærð úr síðasta val í fyrsta val, eða á fótboltamáli..... hún er komin í aðalliðið!
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.