Veiði

Frábær saga af maríulaxi í Fnjóská

Karl Lúðvíksson skrifar

Það er alltaf gaman að frétta af maríulöxum hjá ungum veiðimönnum en þá þess heldur þegar laxarnir eru vænir.

Haraldur Friðriksson sendi okkur þessa skemmtilega veiðisögu úr Fnjóská þar sem hann var við veiðar ásamt dóttur sinni sem gerði sér lítið fyrir og landaði 93 sm maríulaxi. Hér er þessi skemmtilega veiðisaga: 

"Ég verð nú að deila þessu með þér. Dóttir mín hún Laufey Lára fór með mér í Fnjóská dagana 1-3 ágúst og er þetta hennar fyrsta skipti í laxveiði en áður hefur hún komið með í silungsveiði. Stöngin hennar og hjól er aðeins ætlað í silung en til þess að hafa þetta eins gott og hægt var settum við nýja línu á hjólið.

Þann 1 ágúst byrjuðum við á svæði 2 og fórum við niður á Biskupsbreiðu og þaðan í Árbugsárós vestan megin. Svæðið þar getur verið erfitt þar sem að trjágróður og dýpi er alveg við bakkan.

Laufey Lára náði þó góðum köstum með litlu stönginni og hjólinu. Þegar hún var síðan komin niður undir beyju talar hún um að hún sé föst í botni. Ég kem til hennar, stend fyrir aftan hana og tek aðeins í stöngina, finn að það er allt fast en ef ég tók aðeins á stönginni var hægt að koma hreyfingu á "festuna". Hún fer í það að draga "festuna" til okkar en þegar "festan" fer að nálgast okkur tók hún upp á því að taka roku og við það söng í hjólinu.

Mér varð frekar brugðið og hún var frekar hissa. Ég fór í að aðstoða hana við að stilla bremsun og náði svo í háfinn. Þarna var ég búinn að átta mig á að um var að ræða stóran fisk. Þegar ég kem til baka með háfinn er stöngin í keng og það söng í hjólinu. Eftir c.a. 15 mín er stelpan orðin þreytt í höndinni og bauðst ég til þess að taka við en svarið var NEI.

Sem betur fer var fiskurinn alltaf frekar rólegur en tók samt býsna góðar rokur inn á milli og tvívegis reyndi hann að rjúka niður ánna en ég náði í bæði skiptin að fæla hann aftur upp og kom aldrei slaki á línuna hjá minni stelpu því við vorum búinn að ræða það að það yrði alltaf að vera ágætis svegja á stönginni.

Eftir c.a. 30 min var ég búinn að koma mér fyrir, rétt fyrir neðan hana og beið eftir tækifæri að háfa fiskinn sem varð að fara gerast því græjurnar voru ekki alveg að höndla þessa stærð af fiski og stelpan orðinn ansi þreytt. Í háfinn fór hann og stelpan mín settist á bakkan alveg uppgefinn, en stoltur faðir stóð út í á að reyna átti sig á því hvort um væri að ræða góðan draum eða veruleikann. Allt í einu fórum við bæði að hlægja, trúðum þessu varla, horðum lengi vel á dýrið í háfnum ofan í ánni.

Maríulaxinn var þessi stóri hængur 93cm að lengd. Ég hafði rætt það við hana áður að hefð væri fyrir því að borða veiðiuggan af maríulaxinum og var hún alveg á því að gera það, hafði m.a. googlað það og fannst hann ekkert svo stór, það væri nú lítið mál. En á þessu dýri var hann það stór að það hefði geta orðið hættulegt að borða uggann í einum bita, hefði geta staðið í henni . Og kannski ekki heppilegt þar sem honum var að sjálfsögðu sleppt. Þvílíkt ævintýri, úfff, þetta var alveg magnað . Hvað ætli það séu margir sem hafa náð maríulaxinum +90 cm ?"
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.