Innlent

For­eldrum brugðið þegar hoppu­kastali tæmdist

Árni Sæberg skrifar
Þegar þessi mynd var tekin var búið að bjarga öllum börnunum út úr hoppukastalanum.
Þegar þessi mynd var tekin var búið að bjarga öllum börnunum út úr hoppukastalanum. Aðsend

Rafmagni sló út með með þeim afleiðingum að hoppukastali í Hljómskálagarðinum tæmdist af lofti. Að sögn sjónarvotta var börnum og foreldrum þeirra nokkuð brugðið en viðburðastjóri hjá Reykjavíkurborg segir engin börn hafa verið í hættu.

Að sögn sjónarvottar á vettvangi var um hoppukastala fyrir ung börn að ræða og voru átta börn inni í honum þegar loft fór að síga úr honum nokkuð hratt.

Hann segir nærstadda foreldra hafa brugðist hratt við og vaðið inn í hoppukastalann til að ná börnum sínum og annarra út. Þar sem börnin voru fá tókst það fljótt en ljóst sé að verr hefði geta farið.

Guðmundur Birgir Halldórsson, viðburðastjóri hjá Reykjavíkurborg, er staddur í Hljómskálagarði en hafði ekki heyrt af atvikinu þegar Vísir náði tali af honum. Eftir að hafa kannað málið segir hann að kastalinn hafi byrjað að tæmast eftir að rafmagni sló út. 

Hann segir að kastalanum hafi verið lokað um stund á meðan bilun var löguð en hann sé kominn aftur í notkun núna.

Guðmundur segir að öðru leyti góða stemningu vera í Hljómskálagarðinum, veður sé gott, tónleikarnir nýhafnir og mæting betri en skipuleggjendur höfðu búist við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×