Innlent

Ör­magna ferða­menn og slasaður fjall­göngu­maður

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Þyrlusveit gæslunnar hefur farið í tvö útköll í dag.
Þyrlusveit gæslunnar hefur farið í tvö útköll í dag. Vísir/Vilhelm

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hefur farið í tvö útköll í dag. Annað var vegna tveggja erlendra ferðamanna sem örmögnuðust við Trölladyngju, en hitt vegna slasaðs göngumanns á Esjunni.

Þetta segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við fréttastofu. Ferðamennirnir sem sóttir voru norður af Trölladyngju, skammt frá Vatnajökli, höfðu haft með sér neyðarsendi sem þeir notuðu til að senda út merki með staðsetningu sinni.

„Þyrlan fann ferðamennina á staðnum og flutti þá til Reykjavíkur, lenti um klukkan tvö.“

Ásgeir segir afar heppilegt að ferðamenn séu með einhverskonar neyðarsenda á sér, það auðveldi leitir og björgunarstarf til muna, enda sé hægt að sjá með nokkurri nákvæmni hvar fólk er statt þegar slík merki eru send.

„Það er gott að fólkið fannst fljótt og örugglega og hægt að koma því til Reykjavíkur,“ segir Ásgeir.

Aðstæður á Esjunni kölluðu á þyrluna

Skömmu eftir að hafa lent með ferðamennina í Reykjavík fékk þyrlusveitin annað útkall, þá vegna göngumanns sem hafði slasast á Esjunni.

„Björgunarmenn voru komnir að honum og hlúðu að honum. En vegna aðstæðna í fjallinu þótti heppilegra að þyrlan myndi flytja hann á sjúkrahús og lenti með hann núna á fjórða tímanum á Landspítalanum í Fossvogi,“ segir Ásgeir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×