Erlent

Vucic og flokkur hans með örugga sigra í Serbíu

Atli Ísleifsson skrifar
Aleksandar Vucic fagnaði í gær. Hann tók við embætti forseta Serbíu árið 2017.
Aleksandar Vucic fagnaði í gær. Hann tók við embætti forseta Serbíu árið 2017. EPA

Útgönguspár benda til að Aleksandar Vucic Serbíuforseti og Framfaraflokkur hans hafi unnið örugga sigra í forseta- og þingkosningum sem fram fóru í Serbíu um helgina.

BBC segir frá því að spár geri ráð fyrir að Vucic hafi hlotið um sextíu prósent atkvæða í forsetakosningunum og muni því gegna embættinu í fimm ár til viðbótar en hann tók við árið 2017.

Þá virðist sem að Framfaraflokkurinn muni halda yfirburðastöðu sinni á þinginu, en útgönguspárnar gera ráð fyrir að flokkurinn hafi hlotið rúmlega fjörutíu prósent atkvæða. Reiknað er með að flokkurinn muni áfram starfa með Sósíalistaflokknum og þannig verði ríkisstjórnin með öruggan meirihluta á þingi.

Vucic sagðist „stoltur“ af þessum mikla stuðningi þjóðarinnar og lýsti kosningabaráttunni einnig „bestu“ og „fallegustu“ í sögu Serbíu.

Vucic sagðist ætla að halda áfram nútímavæðingu Serbíu þar sem stefnt skuli að því að laða að erlenda fjárfestingu og tryggja frið og stöðugleika. Þá gaf hann í skyn að Serbía muni reyna að viðhalda góðum tengslum við stjórnvöld í Rússlandi. Á sama tíma skuli stefnt að Evrópusambandsaðild.

Helsti andstæðingur Vucic í forsetakosningunum var fyrrverandi hershöfðingi, Zdravko Ponos, sem var frambjóðandi bandalags nokkurra stjórnarandstöðuflokka. Hann virðist þó einungis hafa fengið innan við tuttugu prósent atkvæða.


Tengdar fréttir

Vucic sækist eftir endurkjöri og lofar friði og stöðugleika

Serbar ganga til kosninga í dag en verið er að kjósa bæði forseta og nýtt þing. Aleksandar Vucic forseti og flokkur hans Framfaraflokkurinn sækjast eftir endurkjöri gegn stjórnarandstöðunni sem heitið hefur því að berjast gegn spillingu og tryggja framgang loftslagsmála hjá stjórnvöldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×