Erlent

Eru einum metra frá drengnum en ná ekki til hans

Árni Sæberg skrifar
Umfangsmiklar björgunaraðgerðir eru í gangi í Marokkó.
Umfangsmiklar björgunaraðgerðir eru í gangi í Marokkó. AP Photo/Mosa'ab Elshamy

Viðbragðsaðilar hafa unnið sleitulaust að því að grafa sig að ungum dreng sem féll ofan í brunn fyrir fjórum dögum. Þeir segjast nú hafa grafið göng sem eru einum metra frá drengnum en að ekki sé hægt að komast að honum vegna hættu á skriðufalli.

Björgunarsveitir í Marokkó eru að nálgast fimm ára dreng sem hefur setið fastur í brunni í fjóra daga. Marokkóska þjóðin hefur fylgst náið með björgun drengsins sem heitir Rayan og féll í brunninn á þriðjudaginn.

Brunnurinn er 32 metra djúpur en hann er það þröngur að ekki er hægt að síga ofan í hann og sækja barnið. Myndavél var slakað niður í brunninn í fyrradag og staðfest að Rayan hafði lifað fallið af og er einnig búið að senda mat og súrefni til hans.

Yfirmaður björgunaraðgerða segir þó að óvíst sé hvort Rayan sé lífs eða liðinn. „Það er ómögulegt að kanna líðan barnsins að svo stöddu, en við biðjum til guðs að það sé á lífi,“ segir Abdelhadi Tamrani, í samtali við staðarmiðil.

Nú er svo komið að björgunarmenn hafa grafið meðfram brunninum og útbúið göng sem ná nánast til drengsins, einungis einn metra vantar upp á. Óttast er að jarðvegur gefi undan ef grafið verður beint að drengnum og jarðskriða fari af stað. Gerist það þarf ekki að spyrja að leikslokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×