Innlent

Skjálfti upp á 3,7 fannst á höfuðborgarsvæðinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Reykjanesið í grennd við Keili séð úr flugvél Ragnars Axelssonar ljósmyndara.
Reykjanesið í grennd við Keili séð úr flugvél Ragnars Axelssonar ljósmyndara. Vísir/RAX

Jarðskjálfti 3,7 að stærð fannst nokkuð vel á höfuðborgarsvæðinu og víða á suðvesturhorninu um klukkan tuttugu mínútur yfir tíu. 

Fram kom á vef Veðurstofunnar í morgun að rólegt hafi verið á slóðum skjálftahrinunnar við Fagradalsfjall í nótt. Frá miðnætti fram á morgun höfðu tæplega 90 skjálftar mælst, allir í minni kantinum.

Í gærdag mældust síðan í heild um 1.300 jarðskjálftar á öllum Reykjanesskaganum og segir náttúruvársérfræðingur Veðurstofunnar það sé mun minni virkni en daginn þar á undan, þegar um 2.300 skjálftar mældust.

Síðasti stóri skjálftinn kom um klukkan hálfþrjú í gær. Sá mældist 3,9 stig og átti upptök sín við Hofmannaflöt. Sá skjálfti fannst vel á höfuðborgarsvæðinu og austur á Hellu.

Fyrr um morgunin hafði annar skjálfti upp á 3,4 stig riðið yfir á sömu slóðumn og var þar um svokallaða gikkskjálfta að ræða. Talið er að orsök slíkra skjálfta megi rekja til aukins þrýstings við Fagradalsfjall vegna kvikusöfnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×