Erlent

Fyrr­verandi for­seti Suður-Kóreu er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Chun Doo-hwan var dæmdur til dauða fyrir landráð árið 1996, meðal annars vegna atburðanna í Gwangju en hann var síðar náðaður og honum sleppt í kjölfar ákæruferlis.
Chun Doo-hwan var dæmdur til dauða fyrir landráð árið 1996, meðal annars vegna atburðanna í Gwangju en hann var síðar náðaður og honum sleppt í kjölfar ákæruferlis. AP

Chun Doo-hwan, fyrrverandi forseti Suður-Kóreu, lést í morgun, níutíu ára að aldri.

Chun komst til valda eftir valdarán hersins árið 1979 og átti hann eftir að beita mikilli hörku gegn mótmælendum í landinu ári síðar. Hann lét þá handtaka þúsundir manna sem börðust fyrir lýðræðisumbótum í kjölfar valdatöku hersins.

Chun stýrði landinu sem forseti frá 1980 til 1988.

Suður-kóreskir fjölmiðlar segja Chun hafa verið fluttur á sjúkrahús eftir að hafa fengið hjartaáfall á heimili sínu í suður-kóresku höfuðborginni Seúl.

Samkvæmt opinberum gögnum létu um tvö hundruð manns lífið í mótmælum í borginni Gwangju árið 1980 þar sem þess var krafist að haldnar yrðu lýðræðislegar kosningar. Aðrir vilja hins vegar meina að raunverulegur fjöldi látinna hafi verið um þrisvar sinnum hærri.

Chun var dæmdur til dauða fyrir landráð árið 1996, meðal annars vegna atburðanna í Gwangju, en hann var síðar náðaður og honum sleppt í kjölfar ákæruferlis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×