Veiði

Hlaupvídd 20 líka hentug á rjúpu

Karl Lúðvíksson skrifar
Hér sést munurinn á hlaupvídd 12 og 20,
Hér sést munurinn á hlaupvídd 12 og 20,

Hlaupvídd 12 er það caliber sem langflestir nota hér á landi við skotveiðar en vinsældir á hlaupvídd 20 eru þó að aukast.

Til að segja okkur aðeins frá því hver helsti munur sé á þessum tveimur caliberum hentum við nokkrum spurningum á Kjarta Loranga hjá Veiðihúsinu sem hefur verið ötull skotveiðimaður frá 1986. Sem umboðsaðili Benelli og Franchi er hann fullur af fróðleik um skotvopn og gefur okkur með svörum sínum góða innsýn inn í til dæmis munin á haupvídd 12 og 20

Af hverju er hlaupvídd 12 mest notuð á Íslandi og hverjir eru kostir hennar og gallar?

Ástæðan er nú líklegast sú að þetta er það sem mest er framleitt af í haglaskotum og þar af leiðandi hagkvæmasti kosturinn. Stærsti kosturinn við 12GA er í raun hið gríðarlega mikla úrval af skotfærum sem fáanlegt er, það er hægt að veiða allt sem á annað borð er hægt að veiða með haglabyssu með 12ga. Ókostirnir eru reyndar afar fáir að mínu mati, hins vegar er orðið algengara en áður var að konur stundi veiðar og þar sem flest allar 20 ga byssur eru léttari hefur sala í þeim aukist mikið síðustu ár meðal annars vegna þessa. Mikið af rjúpnaveiðifólki er að færa sig yfir í 20Ga óháð kyni, þetta er skemmtileg þróun. Ég er þeirrar skoðunar að ef þú ætlar að eiga eina haglabyssu þá er 12ga án nokkurs vafa skynsamlegasti kosturinn, en það er náttúrulega ekkert vit í því að eiga bara eina haglabyssu, það er alveg galið

Hver er munurinn á hlaupvídd 12 og 20?

Munurinn liggur aðallega í þvermáli skothylkisins 20Ga er 15,6mm í þvermál meðan 12GA er 18,5mm í þvermál. Hleðslurnar eru þar af leiðandi léttari. 3“ 76mm Magnum hleðsla í 20GA er 36gr á móti 52gr í 12GA 3“. Þar að auki býður 12ga upp á 89mm 3 ½ hleðslur þar sem haglahleðslan getur náð 66 grömmum. Það er algengur misskilningur að bakslag af 20GA sé minna en af 12GA, það er misskilningur en hinsvegar er klassísk veiðihleðsla í 20GA 28-30 grömm á meðan 36-42 gramma hleðslur eru algengastar í 12GA, munurinn liggur aðallega í því, á móti kemur að yfirleitt eru 20GA byssurnar léttari og því gufar þessi munur á bakslagi vegna hleðsluþyngdar upp þar. Þær 20Ga byssur sem að ég á og nota eru léttari og í þau skipti sem að ég hef notað þær með 36gr 3“ hleðslum þá ýta þær alveg við manni, hins vegar finnst mér bakslagið vera „mýkra“ í þeim, veit ekki hvað það er en þannig upplifi ég það.

Kjartan Lorange hefur veitt rjúpur síðan 1986

Er 20 betri hlaupvídd til dæmis á rjúpu?

Ef við gefum okkur það að við ætlum að eyða veiðidegi í það að skjóta rjúpur á góðum færum fyrir haglabyssu 30-35M max, þá er 20Ga hylkið nánast jafnvígt 12Ga. Ef haglastærðin er hentug og höglin fara á réttan stað og færið er ekki of langt er ekki neitt því til fyrirstöðu að þetta virki. Samkvæmt því sem ég hef kynnt mér er haglastrengurinn úr 20Ga skothylkinu lengri en úr 12Ga og það hjálpar þá án nokkurs vafa þegar skotið er á flugi. Spurningin er erfið en 20Ga er sannarlega raunhæfur kostur til rjúpnaveiða, léttari byssa, léttari skot, minni burður. Ég hef skotið flest alla bráð sem leyfilegt er að skjóta á Íslandi með 20Ga og þetta er virkilega duglegt hylki, þetta verður þó seint það sem ég myndi velja mér til gæsa eða skarfaveiða en endur og rjúpur eru engin fyrirstaða.

Í þeim verkfærum sem skyttur nota til rjúpnaveiða hvers eiga menn að gæta til að ná árangri?

Það skiptir litlu ef einhverju að spá í það hvað verkfærið heitir eða er á litinn eða hvað skotstærð það er gert fyrir ef viðkomandi sem er að nota það hefur ekkert æft sig, það skilar litlum árangri og miklum leiðindum að fara á veiðar án þess að hafa æft sig auk þess er það vanvirðing við bráðina. Þannig að niðurstaðan er alltaf sú sama, þekktu byssuna, skotin og eigin getu, tryggðu að allt virki eins og það á að virka og þá er uppskriftin að góðum veiðidegi langt komin, gott veður og fuglar á svæðinu er síðan það sem við lifum alltaf í voninni með að séu inni í jöfnunni.

Hvað finnst þér um breytta veiðitilhögun á þessu tímabili?

Ég er afar þakklátur SKOTVÍS fyrir þeirra vinnu sem tryggði okkur þessa veiðidaga, það er hægt að þrasa endalaust um fyrir hádegi vs eftir hádegi vs heill dagur, það skiptir að mínu mati ekki máli í stóra samhenginu. Staða stofnsins er skv þeim gögnum sem notast er við að nálgast lágmark í sinni reglulegu sveiflu og því er mat þeirra sem ákveða áætlaðan kvóta útfrá veiðiþoli að stofninum beri að hlífa og veiðar miðaðar við 4 fugla á hvern Veiðikortahafa. Mín skoðun á framkvæmdinni er kannski ekki eitthvað sem skiptir máli, ég næ í minn jólamat ef ekkert bregst á þessum ca 110 klukkutímum sem nothæfir eru vegna birtu og við megum ganga til rjúpna á. Ef veðurguðirnir eru okkur hliðhollir þá hef ég engar áhyggjur, það koma jól :)
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.