Erlent

Segja ómannúðlegt að vera tekinn af lífi samdægurs

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Í Japan er mönnum tilkynnt samdægurs þegar til stendur að taka þá af lífi.
Í Japan er mönnum tilkynnt samdægurs þegar til stendur að taka þá af lífi.

Tveir fangar á dauðadeild hafa sótt mál gegn japönskum stjórnvöldum vegna framkvæmdar á dauðarefsingunni. Málið snýst þó ekki um aftökuna sjálfa, þar sem menn eru hengdir, heldur að boðað sé til hennar samdægurs.

Lögmaður mannanna segir þessi vinnubrögð ákaflega ómannúðleg, þar sem þetta hafi veruleg áhrif á andlega heilsu fanga. Alla daga óttist þeir að fá tilkynningu um að þeir verði teknir af lífi á næstu klukkustundum.

Yfirvöld segja framkvæmdinni þvert á móti ætlað að koma í veg fyrir þjáningu fanga fyrir aftöku en lögmaðurinn segir þetta ekki standast skýringar; annars staðar í heiminum fái menn ráðrúm til að melta að líf þeirra sé senn á enda og undirbúa sig andlega.

Fangarnir tveir hafa farið fram á jafnvirði 25 milljóna íslenskra króna í bætur.

Fleiri en 100 fangar bíða aftöku á dauðadeildum í Japan en nærri tvö ár eru liðin frá því að aftaka fór síðast fram þar í landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×