Erlent

Clinton lagður inn með blóðeitrun í kjölfar þvagfærasýkingar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Clinton, George W. Bush og Barack Obama árið 2017
Clinton, George W. Bush og Barack Obama árið 2017 epa/Andrew Gombert

Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hefur verið lagður inn á sjúkrahús eftir að hafa fengið blóðeitrun, eða sýklasótt, í kjölfar þvagfærasýkingar. 

„Hann er á batavegi, er andlega hress og afar þakklátur þeim læknum, hjúkrunarfræðingum og starfsfólki sem hefur veitt honum framúrskarandi umönnun,“ segir Angel Urena, talsmaður Clinton.

Í yfirlýsingu á Twitter segir að forsetinn fyrrverandi hafi verið lagður inn á UC Irvine Douglas Medical Center í Orange í Kaliforníu með sýkingu. Tekið er fram að ekki var um að ræða Covid-tengd veikindi.

Þá sögðu Alpesh Amin og Lisa Bardack, læknar Clinton, í annarri yfirlýsingu að forsetinn hefði verið lagður inn til eftirlits og verið gefið sýklalyf og vökva í æð. Eftir tvo daga væru blóðkornagildin á réttri leið og að sýklalyfjagjöfin væri að bera árangur.

Clinton gekkst undir hjartaðgerð árið 2010 og hjáveituaðgerð á hjarta árið 2004.  Hann hefur einnig gengist undir aðgerðir vegna húðæxla og hefur sögu um ýmis ofnæmi og heyrnaskerðingu. 

New York Times greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×