Innlent

Höfnuðu eiginnafninu Hel og millinafninu Thunderbird

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hel eins og hún birtist í kvikmyndinni Thor: Ragnarök.
Hel eins og hún birtist í kvikmyndinni Thor: Ragnarök. Marvel Studios

Mannanafnanefnd felldi marga úrskurði á fundi sínum 12. október síðastliðinn en þar var eiginnafninu Hel hafnað og sömuleiðis millinöfnunum Thunderbird og Street.

Fjöldi nafna var hins vegar samþykktur; eiginnöfnin Skúa, Rosemarie, Dýrlaug, Hunter, Kateri, Varði, Úrsúley, Ói, Elika, Kristan, Elliott, Kristóbert, Zion, Arne, Kalli og Annarósa og millinafnið Ármúla.

Eiginnafninu Hel var hafnað á þeirri forsendu að samkvæmt Íslenskri orðabók merkti sérnafnið Hel „gyðja dauðaríkisins“ í norrænni goðafræði og samnafnið hel „ríki dauðra, bani, dauði“. 

„Þess vegna er ljóst að nafnið Hel hefur neikvæða og niðrandi merkingu í málvitund almennings og getur orðið nafnbera til ama,“ segir í úrskurði nefndarinnar.

Millinöfnunum Thunderbird og Street var hafnað þar sem þau eru ekki dregin af íslenskum orðstofni og uppfylla þess vegna ekki skilyrði um millinöfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×