Innlent

Stöðva notkun bóluefnis Moderna hér á landi í ljósi nýrra gagna

Eiður Þór Árnason skrifar
Geyma þarf bóluefni Moderna við um 20 gráðu frost.
Geyma þarf bóluefni Moderna við um 20 gráðu frost. Charlie Riedel/AP

Sóttvarnalæknir hefur ákveðið að bóluefni Moderna gegn Covid-19 verði ekki notað hér á landi á meðan frekari upplýsinga er aflað um öryggi bóluefnisins við örvunarbólusetningar.

Í tilkynningu segir að undanfarna daga hafi komið fram gögn frá Norðurlöndum um aukna tíðni hjartabólgu og gollurshússbólgu eftir bólusetningu með bóluefni Moderna umfram bóluefni Pfizer/BioNTech.

Að sögn sóttvarnalæknis hefur bóluefni Moderna undanfarna tvo mánuði nær eingöngu verið notað hér við örvunarbólusetningar eftir Janssen bóluefni og eftir tveggja skammta bólusetningar aldraðra og ónæmisbældra. Þá eru örfáir einstaklingar sagðir hafa fengið seinni skammt grunnbólusetningar sem hófst með Moderna.

Nægt framboð af Pfizer

Í Svíþjóð hefur notkun Moderna verið einskorðuð við einstaklinga fædda fyrir árið 1991. Í Noregi og Danmörku hefur verið áréttað að mælt er með bóluefni Pfizer frekar en Moderna fyrir 12 til 17 ára.

Hér á landi hefur eingöngu verið mælt með bóluefni Pfizer við grunnbólusetningu 12 til 17 ára frá því að bólusetningar aldurshópsins hófust.

Að sögn sóttvarnalæknis var ákvörðun tekin um að bíða með notkun Moderna þar sem nægt framboð sé af bóluefni Pfizer fyrir örvunarbólusetningar skilgreindra forgangshópa og grunnbólusetningar þeirra sem hafa ekki enn fengið bólusetningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×