Erlent

Réðst á fyrrverandi eiginkonu sína með öxi og var skotinn

Samúel Karl Ólason skrifar
John Wes Townley á blaðamannafundi eftir NASCAR-keppni árið 2014.
John Wes Townley á blaðamannafundi eftir NASCAR-keppni árið 2014. AP/Nam Y. Huh

John Wes Townley, fyrrverandi ökumaður í NASCAR, var skotinn til bana í Georgíu í Bandaríkjunum um helgina. Hann var skotinn eftir að hann réðst á fyrrverandi eiginkonu sína og annan mann með öxi.

Skilnaði John og Lauru Townley lauk formlega á föstudaginn en hún var með Zachary Anderson á laugardagskvöldið þegar Townley veittist að þeim með öxi.

Anderson skaut Townley til bana en særði einnig Lauru Townley fyrir slysni.

Hún særðist alvarlega en er ekki sögð í lífshættu, samkvæmt frétt AP. John Wes Townley lést á sjúkrahúsi.

Townley keyrði í NASCAR í átta tímabil og ók hann bíl sem var í eigu föður hans. Hann vann eina keppni í einni af lægri deildum NASCAR í Las Vegas fyrir sex árum.

AP segir lögregluna reyna að varpa ljósi á það hvort Townley hafi mætt á vettvang með öxina eða hvort hún hafi verið á heimilinu þar sem hann var skotinn til bana.

Héraðsmiðillinn Athens Banner-Herald segir hins vegar að Townley hafi mætt með öxina. Miðillinn segir einnig að Townley hafi verið ákærður fyrir heimilisofbeldi gegn Lauru Townley árið 2019. Þá játaði hann brot sitt og var dæmdur til skilorðs í tólf mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×