Innlent

Íbúar á Hlíð í sóttkví

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Heilsuvernd tók nýlega við rekstri hjúkrunarheimilisins Hlíðar á Akureyri.
Heilsuvernd tók nýlega við rekstri hjúkrunarheimilisins Hlíðar á Akureyri. Akureyrarbær

Íbúar á einu heimili Heilsuverndar hjúkrunarheimila á Hlíð á Akureyri eru nú komnir í sóttkví eða smitgát ásamt nokkrum starfsmönnum vegna smits sem greindist hjá einum starfsmanni seinni partinn í gær, föstudag.

Töluverð aukning hefur verið í greindum Covid-19 smitum á Akureyri síðustu daga en alls greindust 25 smit þar í gær. Fimmtíu eru í einangrun á Akureyri og hátt í fimm hundruð í sóttkví.



Í tilkynningu á vef Hlíðar segir að viðbragðsáætlun hafi verið virkjuð í gærkvöldi og fyrirmælum rakningarteymis fylgt í hvívetna.

Þetta er í fyrsta sinn síðan faraldurinn hófst sem smit hefur áhrif á starfsemi hjúkrunarheimila Heilsuverndar. Hingað til hefur enginn íbúi smitast hvorki á Hlíð né Lögmannshlíð, að því er fram kemur á vef Hlíðar.

Búið er að upplýsa alla íbúa og verið er að hafa samband við aðstandendur þeirra.

Aðgerðir á Víði- og Furuhlíð hafa ekki áhrif á starfsemi annarra eininga Heilsuverndar hjúkrunarheimila þar sem lífið gengur sinn vanagang. Þar eru heimsóknir leyfðar en vegna fjölgunar smita undanfarna daga á svæðinu þá beinum við þeim tilmælum til aðstandenda að þeir takmarki heimsóknir.

Aukning smita er aðallega meðal óbólusettra barna og ungmenna og því óæskilegt að sá hópur komi í heimsókn að sinni, að því er segir á vef Hlíðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×