Innlent

Vöknuðu af værum svefni í Hlíðunum við sjúkraflug

Samúel Karl Ólason skrifar
Þyrla landhelgisgæslunnar í æfingarflugi.
Þyrla landhelgisgæslunnar í æfingarflugi. Vísir/Vilhelm

Íbúar í Hlíðunum vöknuðu af værum svefni við þyrluflug yfir hverfið í nótt. Þarna var þyrla Landhelgisgæslunnar á ferð. Þyrlunni TF-GNA var flogið af stað á öðrum tímanum í nótt til að sækja veikan aðila á Barðaströnd.

Henni var svo lent með þann veika við Landspítalann í Fossvogi um klukkan þrjú í nótt.

Miðað við umræðuna í Facebookhópi íbúa í Hlíðunum telja einhverjir að þyrlunni hefði verið flogið ítrekað yfir hverfið. Það er þó ekki rétt miðað við upplýsingar frá Landhelgisgæslunni. Þyrlunni var flogið að sjúkrahúsinu, þar sem henni var lent, og svo flogið aftur til Reykjavíkurflugvallar skömmu seinna.

Fyrr í gær hafði áhöfn þyrlunnar verið kölluð út vegna hestaslyss ofan við Grenivík. Þá var kona flutt síðdegis til Reykjavíkur til aðhlynningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×