Innlent

Opna nýja starfsstöð fyrir Covid-19 hraðpróf

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Stöðin er til húsa á móti Kringlunni og opnar á morgun.
Stöðin er til húsa á móti Kringlunni og opnar á morgun. Sameind

Sameind og AVÍÖR opna í fyrramálið nýja starfsstöð fyrir greiningu á Covid-19 með hraðprófum. Þar verður hægt að framkvæma tvö- til þrjúþúsund hraðpróf á dag. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sameind. Opið verður á starfsstöðinni alla daga vikunnar en hún verður til húsa í Húsi verslunarinnar við Kringlumýrarbraut. 

„Næmi COVID-19 hraðprófa er nokkuð mismunandi eftir gæðum þeirra og einnig hvernig staðið er að sýnatökunni sjálfri. Í nýlegri grein í vísindatímaritinu Nature kemur fram að næmi vandaðra COVID-19 hraðprófa, þar sem heilbrigðisstarfsfólk tekur nefkokssýni, er 98% en 82% þegar sýni eru tekin úr nös,“ segir í tilkynningunni. 

Næmi prófanna fari þá niður í 58 prósent þegar óþjálfaður einstaklingur framkvæmir prófið.

„Það er því mjög mikilvægt að nota vönduð próf sem framkvæmd eru af vel þjálfuðu starfsfólki.“

Hraðpróf hafa verið heimiluð til notkunar fyrir almenning hér á landi en sú krafa er gerð að vottorð á grundvelli slíkra hraðprófa séu aðeins gefin út séu prófin framkvæmd á rannsóknarstofum sem hafa starfsleyfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×