Erlent

Þrjá­tíu ár frá upp­hafi mis­heppnaðs valda­ráns sovéskra harð­línu­manna

Heimir Már Pétursson skrifar
Fjöldi fólks safnaðist saman á Rauða torginu í Moskvu 18. ágúst 1991 til að mótmæla valdaránstilrauninni.
Fjöldi fólks safnaðist saman á Rauða torginu í Moskvu 18. ágúst 1991 til að mótmæla valdaránstilrauninni. Getty

Þrjátíu ár eru í dag liðin frá upphafi misheppnaðs valdaráns harðlínumanna í sovéska Kommúnistaflokknum hinn 18. ágúst árið 1991.

Mikhail Gorbatsjov, síðasti leiðtogi kommúnistaflokksins og forseti Sovétríkjanna, var í sumarhúsi sínu við Svartahaf þegar háttsettir embættismenn komu þangað til að fá hann til að lýsa yfir neyðarástandi í landinu. Þegar hann neitaði að skrifa undir slíka yfirlýsingu voru hann og Raiza eiginkona hans sett í stofufangelsi í sumarhúsinu.

Harðlínumenn sendu fjölda skriðdreka til Moskvu og hermenn umkringdu meðal annars rússneska þingið.

Valdaránið rann út í sandinn eftir þrjá daga en Boris Jeltsín, þáverandi forseti Rússlands, leiddi sókn gegn valdaránsmönnum sem margir hverjir voru drukknir og örvæntingarfullir. Gorbatsjov var fagnað við komuna til Moskvu að þremur dögum liðnum en í raun varð þessi atburðarás upphafið að endalokum Sovétríkjanna.

Á jóladag 1991 sagði Gorbatsjov af sér forsetaembættinu og um kvöldið var sovéski fáninn dreginn niður og sá rússneski dreginn að húni í Kreml.

Við tóku sjálfstæðar stjórnir þeirra ríkja sem áður höfðu tilheyrt Sovétríkjunum og mörg hver öðluðust síðar fullt sjálfstæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×