Veiði

Flottir sjóbirtingar úr Eyjafjarðaá

Karl Lúðvíksson skrifar
Jón Gunnar með 83 sm sjóbirtinginn
Jón Gunnar með 83 sm sjóbirtinginn Mynd: Jón Gunnar FB

Eyjafjarðará er oftar og oftar að skila á land vænum fiskum sem sýnir að sú regla að sleppa aftur fiski er að skila þeim stærri til baka.

Í gegnum tíðina hefur alltaf veiðst einn og einn birtingur í ánni en síðustu ár hefur þeim verið að fjölga og þeir eru sífellt stærri. Sama má segja um bleikjuna en það var mjög fréttnæmt fyrir nokkrum árum ef það voru að veiðast bleikjur yfir 60 sm en núna þurfa þær að teygja sig í 70 sm til að eiga séns á myndbirtingu.

Aron með vænan birting úr EyjafjarðaráMynd: AS

Á rétt tæpri viku hafa veiðst tvær rígvænir sjóbirtingar í ánni til viðbótar við nokkra minni og vænar bleikjur en þessir birtingar eru klárlega það sem veiðimenn eru þakklátir fyrir að sjá oftar í ánni. Aron Sig­urþórs­son átti til að mynda frábæran dag nýlega þegar hann landaði fjórum vænum birtingum en sá stærsti var 81 sm og sést á meðfylgjandi mynd. 

Jón Gunnar Benjamínsson náði síðan í gær einum 83 sm sjóbirting sem eins og öllum vænum fiski í ánni er sleppt aftur og það er það sem er að bjarga þessum stofni í ánni. Eins og myndin sem fylgir þessari frétt af 83 sm birtingnum ber með sér eru þetta virkilega þéttir og vænir sjóbirtingar sem eru að veiðast og það verður spennandi að sjá hvenig veiðin þróast í stærðum á þessum fiskum sem ennþá synda í hyljum Eyjarfjarðarár.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.