Veður

Norðan­áttin gæti orðið þaul­setin næstu daga

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti verður sjö til ellefu stig suðvestantil, en annars eitt til sjö stig.
Hiti verður sjö til ellefu stig suðvestantil, en annars eitt til sjö stig. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan gerir ráð fyrir „aðgerðarlitlu veðri“ í dag með dálítilli vætu sunnan- og vestanlands. Víða verður bjart veður í öðrum landshlutum. Hiti verður sjö til ellefu stig suðvestantil, en annars eitt til sjö stig.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að á morgun, föstudag, kólni með norðlægum áttum og að þá sé útlit fyrir að norðanáttin gæti orðið þaulsetin næstu daga.

„Búast má við éljum um landið norðan- og austanvert, en lengst af þurrt og bjart veður sunnan heiða. Viðbúið er að næturfrost verði á mest öllu landinu og hitinn yfir daginn 0 til 4 stig fyrir norðan og austan á meðan að á sunnanverðu landinu ætti hitinn að vera 4 til 8 stig.“

Spákort Veðurstofunnar fyrir hádegi í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag: Gengur í norðaustan 8-13 m/s. Dálítil él norðan- og austanlands, rigning með köflum um landið sunnanvert, einkum þó SA-lands, en annars þurrt. Hiti frá frostmarki fyrir norðan, upp í 8 stig með suðurströndinni.

Á laugardag: Norðaustan 5-13 og dálítil él norðan- og austanlands, en bjartviðri sunnan heiða. Hiti 0 til 7 stig að deginum, mildast S-lands.

Á sunnudag: Norðaustan og austan 3-10. Skýjað NA- og A-lands, en bjartviðri vestantil. Hiti breytist lítið.

Á mánudag og þriðjudag: Norðlæg átt. Skýjað og úrkomulítið norðantil á landinu, hiti um frostmark. Þurrt og bjart sunnan- og vestanlands með hita að 9 stigum yfir daginn.

Á miðvikudag: Útlit fyrir norðaustanátt með éljum fyrir norðan og austan, en bjartviðri annars staðar. Áfram fremur kalt, en hiti að 7 stigum SV-til að deginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×