Innlent

Íslendingur settur á svartan lista í Kína fyrir gagnrýnin skrif

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kínverska sendiráðið.
Kínverska sendiráðið. Vísir/Vilhelm

Lögmaðurinn Jónas Haraldsson er á svörtum lista stjórnvalda í Kína, má ekki ferðast til landsins og þá hafa mögulegar eignir hans þar verið frystar. 

Ástæðan er sögð vera greinaskrif Jónasar í Morgunblaðið, þar sem hann hefur meðal annars gagnrýnt ástand fasteignar í eigu kínverska sendiráðsins og viðbrögð Kínverja við kórónuveirufaraldrinum.

„Þetta er í anda stjórnarfarsins sem þarna ríkir, þar sem hörðum aðgerðum er beint gegn almennum borgurum í þeim tilgangi að koma í veg fyrir gagnrýna hugsun,“ hefur Morgunblaðið eftir Sigríði Á. Andersen, þingmanni Sjálfstæðisflokksins og formanni utanríkismálanefndar Alþingis.

Í umfjöllun blaðsins kemur fram að Gunnari Snorra Gunnarssyni, sendiherra Íslands í Peking, hafi verið tilkynnt um ákvörðunina á miðvikudag en Jónas var boðaður í utanríkisráðuneytið í gærmorgun, þar sem hann var upplýstur um stöðuna.

Gunnar Snorri er sagður hafa mótmælt aðgerðinni samstundis og þá hafði mbl.is eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra í gær að hún væri með öllu óviðunandi.

Morgunblaðið fullyrðir að Jónas sé einn Íslendinga á umræddum svarta lista.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×