Innlent

Segir ástæðu til að hafa áhyggjur af smiti gærdagsins

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Innanlandssmitið sem greindist utan sóttkvíar í gær sýnir að veiran er ekki horfin úr íslensku samfélagi. Ekki er búið að rekja smitið og þá liggur raðgreining ekki fyrir.

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag.

Hann sagðist vona að hópsýkingin sem kom upp fyrir tveimur vikum væri yfirstaðin en tók fram að ekki væri hægt að útiloka eitthvað samfélagslegt smit út frá smitinu sem greindist í gær.

Þórólfur sagði smitrakningu standa yfir og þá býst hann við niðurstöðu úr raðgreiningu í kvöld. Þá sagði hann að þeir staðir sem sá smitaði var á væru nokkuð afmarkaðir og ekki mjög margir.

Líklegast yrði hægt að hafa samband við alla þá sem voru á þeim stöðum upp á sóttkví og sýnatöku að gera.

„Það er ástæða til að hafa áhyggjur af smitinu sem greindist í gær utan sóttkvíar en við erum á fullu að setja fólk í sóttkví og skima í kringum þennan einstakling,“ sagði Þórólfur.

Þá hvatti hann almenning til að gæta áfram að ítrustu sóttvörnum.

„Tilfellið sem greindist í gær sýnir það að veiran er ekki horfin úr íslensku samfélagi og ef við pössum okkur ekki getum við fengið aðra bylgju í bakið,“ sagði Þórólfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×