Innlent

Snarpur skjálfti rétt eftir miðnætti

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Skjálftavirknin hefur verið mikil á Reykjanesi undanfarna daga.
Skjálftavirknin hefur verið mikil á Reykjanesi undanfarna daga. Vísir/Vilhelm

Enn skelfur suðvesturhornið en höfuðborgarsvæðið hristist vel um klukkan tíu mínútur yfir tólf. Jarðskjálftahrinan ætlar greinilega að halda áfram í mars en mánuðurinn rann í garð á miðnætti.

Tæplega fimmtíu skjálftar stærri en þrír að stærð riðu yfir á Reykjanesi undanfarinn sólarhring. Nýr sólarhringur og mánuður var rétt hafinn þegar hristingurinn fannst upp úr miðnætti.

Samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofunnar, sem legið hefur niðri stóran hluta kvöldsins en er nú aftur komin í lag, var skjálftinn 3,2 að stærð. Fyrstu tölur bentu til þess að hann hefði verið 2,4 að stærð sem vakti furðu margra lesenda Vísis á höfuðborgarsvæðinu sem fundu vel fyrir skjálftanum.

Skjálftinn virðist hafa verið á 4,2 kílómetra dýpi um 4,5 kílómetra norður af Krýsuvík. Í tilkynningu frá Veðurstofunni klukkan 00:28 segir að hann hafi verið staðsettur við Trölladyngju. Fram hefur komið að skjálftarnir séu farnir að þéttast á því svæði.

Annar snarpur skjálfti varð laust fyrir klukkan hálf eitt. Hann mældist 3,5 að stærð en hann var staðsettur við Keili og fannst á Reykjanesi, höfuðborgarsvæðinu og upp í Borgarnes.

Fréttin hefur verið uppfærð með nýjustu upplýsingum af vef Veðurstofu Íslands.


Tengdar fréttir

Skjálftarnir farnir að þéttast á Trölla­dyngju-Keilis svæðinu

Jarðskjálftavirknin á Reykjanesskaga er farin að þéttast um Trölladyngju- og Keilissvæðið. Þá hafa skjálftarnir einnig verið að færast í átt að Þorbirni við Grindavík. Samkvæmt eldsuppkomumati Eldfjallafræði og náttúruvárhóps Háskóla Íslands er gert ráð fyrir að vænta megi eldgoss á víðfeðmu svæði.

Enn einn snarpur skjálfti og vefur Veður­stofunnar hrundi

Snarpur jarðskjálfti fannst víða á suðvesturhorni landsins rétt eftir klukkan hálf tíu. Jarðskjálftinn var 3,8 að stærð og átti upptök sín um einn kílómetra suðvestur af Keili samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×