Innlent

Segir einum kafla stríðsins við veiruna lokið

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að nú megi segja að einum kafla í stríðinu við kórónuveiruna sem valdið getur Covid-19 sé lokið. Landi sé hins vegar ekki náð. Nú taki við nýr kafli sem felst í því að koma í veg fyrir að faraldurinn blossi upp að nýju hér á landi.

Þetta sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis um Covid-19 hér á landi í dag.

„Við þurfum að fara mjög varlega næstu mánuðina ef ekki á illa að fara,“ segir Þórólfur. Þann 4. maí verða breytingar á reglum samkomubannsins sem sett var á um miðjan mars. Þá mega 50 manns vera í sama rýminu, en ekki 20 eins og nú.

Þórólfur segir að áskoranir næstu mánaða verði að aflétta samkomutakmörkunum hægt, viðhafa viðunandi ferðatakmarkanir hingað til lands, fylgjast með hópsýkingum, halda áfram að rekja smit og setja þá sem útsettir eru fyrir smiti í sóttkví, vernda viðkvæma hópa og hefja mótefnamælingar.

Eins segir hann að hefjast þurfi handa við að skoða aðgerðir stjórnvalda til að hefta útbreiðslu veirunnar og það sem komið hefur út úr faraldrinum. Það muni líklega gagnast okkur og öðrum þjóðum í framtíðinni þegar tekist verður á aðra faraldra, sem og aðra bylgju þessa faraldurs ef til hennar kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×