Innlent

17 af 20 veikir í togara í Eyjum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá höfninni í Vestmannaeyjum í morgun. Skjáskot úr vefmyndavél Geisli.is.
Frá höfninni í Vestmannaeyjum í morgun. Skjáskot úr vefmyndavél Geisli.is. Geisli

Togarinn Hrafn Sveinbjarnarson GK 255með tuttugu manns um borð lagði að bryggju í Vestmannaeyjum klukkan ellefu í gærkvöldi. Sautján af tuttugu skipverjum höfðu glímt við veikindi og voru þrír mikið veikir.

Landhelgisgæslan tilkynnti komu skipsins til lögreglu og hefur hafnarsvæðinu verið lokað fyrir almenningi.

Í tilkynningu frá lögreglunni í Vestmannaeyjum kemur fram að heilbrigðisstarfsmenn hafi farið um borð þegar skipið hafði lagst að bryggju. Forgangsmál var að sinna sjúklingunum.

Tekin voru sýni vegna kórónuveirunnar sem veldur Covid-19 sjúkdómnum úr sjö skipverjum. Fjórir skipverjar voru teknir í land og komið fyrir í farsóttarhúsi vegna veikinda þeirra.

Aðrir skipverjar eru um borð í skipinu í svokallaðri biðkví á meðan málið er til rannsóknar og fer enginn frá borði fyrr en niðurstaða liggur fyrir.

Ekki hefur verið staðfest að veikindin stafi af smiti vegna kórónaveirunnar heldur er um varúðarráðstöfun að ræða vegna útbreiðslu hennar.

Þegar niðurstaða vegna rannsóknar sýnanna liggur fyrir verða frekari ákvarðanir teknar. Skipverjarnir hafa greiðan aðgang að læknum heilsugæslunnar og er vel sinnt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×