Viðskipti innlent

For­stjóri Icelandair segir ó­raun­hæft að vera með tvö ís­lensk flug­fé­lög

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Vísir/Vilhelm

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir það fullreynt að reka tvö íslensk flugfélög sem séu með tengimiðstöð á Keflavíkurflugvelli. Það hafi fyrst verið reynt með Iceland Express og svo WOW air.

Þetta kemur fram í viðtali við Boga í Markaðnum, fylgiblaði Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál, í dag en Bogi er maður ársins í íslensku viðskiptalífi að mati dómnefndar markaðarins.

Hlýtur hann viðurkenninguna fyrir að hafa leitt Icelandair „í gegnum vel heppnaða endurskipulagningu og hlutafjárútboð við gríðarlega erfiðar aðstæður,“ eins og segir á forsíðu Fréttablaðsins.

„Það er mín skoðun að það sé engan veginn raunhæft að reka tvö flugfélög á Íslandi sem eru með Keflavíkurflugvöll sem tengimiðstöð,“ segir Bogi við Fréttablaðið.

Play Air er nýtt íslenskt lággjaldaflugfélag sem stofnað var fyrr á árinu. Forsvarsmenn segja langtímafjármögnun tryggða og félagði sé tilbúið til að hefja flugrekstur um leið og tækifæri gefst.

Aðspurður kveðst Bogi ekki hræddur við samkeppni en bendir á að heimamarkaðurinn sé mikilvægur. Hér á landi telji hann aðeins 360 þúsund manns.

„Þess vegna tel ég ekki raunhæft að reka héðan tvö flugfélög til lengri tíma sem starfrækja tengibanka,“ segir Bogi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×