Erlent

Lífs­tíðar­fangelsi yfir valda­ráns­mönnum í Tyrk­landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Hermenn standa vörðvið dómshúsið í Ankara þar sem réttað er yfir 475 manns sem tyrknesk yfirvöld saka um að hafa staðið að blóðugri valdaránstilraun árið 2016.
Hermenn standa vörðvið dómshúsið í Ankara þar sem réttað er yfir 475 manns sem tyrknesk yfirvöld saka um að hafa staðið að blóðugri valdaránstilraun árið 2016. Vísir/AP

Dómstóll í Tyrklandi dæmdi á þriðja tug manna í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa tekið þátt í valdaránstilraun árið 2016 í dag. Herforingjar og orrustuflugmenn eru á meðal hátt í 500 sakborninga í málinu.

Dómstóll í Tyrklandi dæmdi á þriðja tug manna í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa tekið þátt í valdaránstilraun árið 2016 í dag. Herforingjar og orrustuflugmenn eru á meðal hátt í 500 sakborninga í málinu.

Ríkisstjórn Receps Erdogan forseta hefur sakað Fethullah Gulen, klerk sem er í útlegð í Bandaríkjunum, um að leggja á ráðin um valdaránstilraunina fyrir fjórum árum. Fleiri en 250 manns féllu í átökum þegar uppreisnarhermenn tóku orrustuþotur, þyrlur og skriðdreka og reyndu að steypa Erdogan af stóli 15. júlí árið 2016, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Fjórir höfuðpaurar voru dæmdir sekir um glæpi gegn ríkinu, tilraun til að ráða forsetann af dögum og morð og fengu hver röð lífstíðardóma. Mennirnir eru sagðir óbreyttir borgarar sem hafi verið milliliðir á milli hreyfingar Gulen og herforingja.

Að minnsta kosti 21 sakborningur til viðbótar, flugmenn og herforingjar, fengu einnig lífstíðardóma fyrir sinn þátt í valdaránstilrauninni, að sögn AP-fréttastofunnar. Þeim var gefið að sök að hafa stýrt valdaránstilrauninni og varpað sprengjum á stjórnarbyggingar, þar á meðal þinghúsið í Ankara.

Gulen sjálfur er á meðal sakborninganna 475 í málinu en hann hefur neitað að hafa komið nálægt valdaránstilrauninni. Dómstóllinn úrskurðaði að réttað skyldi yfir Gulen og fjórum öðrum sakborningum sem enn er leitað sérstaklega.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×