Innlent

Til­lögur Þór­ólfs um til­slakanir ræddar í ríkis­stjórn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Telma Tómasson skrifa
Sóttvarnalæknir skilaði tillögum sínum til Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, í vikunni. Svandís sést hér á fundi í lok október þar sem núverandi reglur yfirvalda um samkomutakmarkanir voru kynntar. Fyrir aftan hana stendur Alma Möller, landlæknir.
Sóttvarnalæknir skilaði tillögum sínum til Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, í vikunni. Svandís sést hér á fundi í lok október þar sem núverandi reglur yfirvalda um samkomutakmarkanir voru kynntar. Fyrir aftan hana stendur Alma Möller, landlæknir. Vísir/Vilhelm

Gera má ráð fyrir að rætt verði um tillögur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis um tilslakanir á samkomutakmörkunum vegna faraldurs kórónuveirunnar á fundi ríkisstjórnarinnar í dag.

Núverandi sóttvarnaaðgerðir, sem eru þær hörðustu sem stjórnvöld hafa gripið til og kveða meðal annars á um tíu manna samkomubann, gilda til og með 17. nóvember. Nýjar reglur um samkomutakmarkanir eiga því að taka gildi næstkomandi miðvikudag, þann 18. nóvember.

Þórólfur skilaði minnisblaði með sínum tillögum að áframhaldandi aðgerðum til heilbrigðisráðherra í vikunni. Hann vildi þó ekkert fara út í einstakar tillögur á upplýsingafundi í gær en sagði þó að í þeim fælust einhverjar tilslakanir.

Þá væru tillögur hans kannski vægari en margir hefðu vonast til og ítrekaði Þórólfur það sem hann hefur áður sagt um að fara þurfi mjög hægt í afléttingu aðgerða til að minnka líkur á að farsóttin nái sér á flug á ný.

Varðandi stöðuna á faraldrinum sagði Þórólfur tölurnar undanfarna daga gefa sterkar vísbendingar um að samfélagslegt smit væri á niðurleið. Það væri jákvætt.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur að mestu farið eftir tillögum sóttvarnalæknis í ákvörðunum sínum um aðgerðir, en hefur þó sagt að umræða sé jafnan mikil um málið á vettvangi ríkisstjórnarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×