Innlent

Veitinga­húsi lokað vegna brota á sótt­varna­lögum

Telma Tómasson skrifar
Í dagbók lögreglu segir að átján gestir hafi verið á staðnum og tveir starfsmenn. Það gera alls 20 manns en nú mega ekki meira en tíu koma saman.
Í dagbók lögreglu segir að átján gestir hafi verið á staðnum og tveir starfsmenn. Það gera alls 20 manns en nú mega ekki meira en tíu koma saman. Vísir/Vilhelm

Veitingahúsi í Kópavogi var lokað í gærkvöldi vegna brota á sóttvarnalögum. Í eftirliti lögreglu um níuleytið reyndust 18 gestir vera inni á staðnum og tveir starfsmenn.

Það gera alls 20 manns en nú mega ekki meira en tíu koma saman samkvæmt reglugerð um samkomutakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins.

Enginn var með andlitsgrímu og þá var tveggja metra reglan ekki virt. Staðurinn hafði auglýst að opið væri fyrir viðskiptavini meðan landsleikur Íslands og Ungverjalands í knattspyrnu fór fram.

Gestum var vísað út, staðnum lokað og rekstraraðilinn verður kærður fyrir brot á sóttvarnalögum.

Þá var maður handtekinn á Seltjarnarnesi um ellefu í gærkvöldi, grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, líkamsrárás og fleira.

Maðurinn hafði meðal annars ekið mjög hægt og í veg fyrir bifreið sem reynt hafði framúrakstur, en eftir það stöðvaði hann bifreið sína og bakkaði á bíl fyrir aftan sig. Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×