Erlent

Brúin brast í beinni útsendingu

Kjartan Kjartansson skrifar
Stór bútur úr Hiddenite-brúnni í Norður-Karólínu hrundi í vatnavöxtunum.
Stór bútur úr Hiddenite-brúnni í Norður-Karólínu hrundi í vatnavöxtunum. Skjáskot/Fox 46

Litlu mátti muna að illa færi þegar brú sem sjónvarpskona og tökumaður stóðu á fór skyndilega í sundur í beinni útsendingu í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Miklir vatnavextir hafa fylgt hitabeltisstorminum Eta þar.

Amber Roberts, fréttakona Fox 46-sjónvarpsstöðvarinnar, var að segja frá flóði við Hiddenite-brúna í Alexander-sýslu þegar bútur úr brúnni hrundi rétt við fætur hennar. Náði hún og tökumaður að koma sér undan.

„Við erum að bakka, við erum að bakka! Við sáum veginn hrynja hér í beinni sjónvarpsútsendingu, sama veg og við stóðum á fyrir örfáum sekúndum!“ heyrist Roberts segja sem var greinilega brugðið.

Fimm eru taldir af í flóðunum í Norður-Karólínu, þar á meðal ellefu ára gamalt barn sem fannst látið nálægt Raleigh, að sögn Weather Channel. Viðbragðslið hefur þurft að bjarga fjölda manns sem hefur lent í sjálfheldu vegna vatnavaxtanna.

Eta hefur einnig valdið usla á Flórída þar sem óveðrið gekk fyrst á land. Þar hefur gert úrhellisúrkomu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×