Makamál

Föðurland: „Hefði verið heppilegast að skiptast á að ganga með barnið“

Ása Ninna Pétursdóttir skrifar
Fjölmiðla- og dagskrárgerðamaðurinn Benedikt Valsson segir frá upplifun sinni af því að verða faðir í fyrsta skipti.
Fjölmiðla- og dagskrárgerðamaðurinn Benedikt Valsson segir frá upplifun sinni af því að verða faðir í fyrsta skipti. Aðsend mynd

„Ég hafði áhyggjur af því að kunna ekki neitt, vera ekki nógu tilbúinn af því við komumst ekki á námskeiðin. En þær áhyggjur voru óþarfar,“ segir Benedikt Valsson í viðtali við Makamál. 

Feðradagurinn er haldin hátíðlegur í dag. Dagur sem tileinkaður er feðrum, hlutverki þeirra og tilvist. Til hamingju allir feður með daginn ykkar!

Benedikt Valsson dagskrárgerðamaður, sem flestir ættu að þekkja úr Hraðfréttum, eignaðist sitt fyrsta barn á árinu. Ári sem seint gleymist.

Ásamt því að finna sig í nýju hlutverki sem faðir hefur Benni, eins og hann er oftast kallaður, haft í nógu að snúast og er þessa dagana að klippa sjóvarpsþættina Líf Dafnar. Þættirnir fjalla um líf foreldra og barna fyrstu þrjú árin og byrja þeir í sýningu á næsta ári. 

Í viðtalsliðnum FÖÐURLAND heyrum við af reynslu feðra af meðgöngu og fæðingu. Þeirra hlið og þeirra upplifun sem stundum vill gleymast í umræðunni. 

Nafn? Benedikt Valsson. 

Maki? Heiða Björk Ingimarsdóttir, danskennari og móttökuritari.

Aldur? 32 ára.

Hvað áttu mörg börn? Þetta er fyrsta barnið mitt. 

Hvernig tilfinning var það að komast að því að þið ættuð von á barni?

 Mögnuð tilfinning og mikil gleði. Við erum búin að vera lengi saman og það var mikil tilhlökkun að fá nýjan einstakling inn í lífið okkar.

Fylgdist með því hvort barnið væri orðin pera eða melóna

Hvernig upplifðir þú þitt hlutverk á meðgöngunni? Í raun sem stuðningsmaður og peppari, lítið annað sem ég gat gert.

Fannst þér þú ná að tengjast ófædda barninu? Ég upplifði enga meiriháttar tengingu þegar hann var í maganum á mömmu sinni. Meðgangan gekk blessunarlega vel, hann hreyfði sig og var almennt í góðum fíling. Ég var líka með svona meðgöngu-app þar sem ég fylgdist vel með því hvort að hann væri orðinn pera eða melóna.

Upplifðir þú einhverja vanmáttartilfinningu á meðgöngunni? Nei í rauninni ekki. Mér fannst litli drengurinn alltaf frekar öruggur og þægilegur í maganum á mömmu sinni.

Hvernig tilkynntuð þið fjölskyldunni um meðgönguna? Mamma mín fékk að vita þetta sama dag og Heiða pissaði á prikið enda bjuggum við hjá henni um tíma þegar þetta gerist og því ansi erfitt að vera í einhverjum feluleik. Við buðum okkur í mat hjá hinum og tilkynntum þetta nokkuð hefðbundið.

Fæðingarnámskeiðinu aflýst vegna Covid

Fenguð þið að vita kynið? 

Já, við fórum í kynjasónar hjá 9 mánuðum svo við myndum vita það fyrir jól, hálfgerður jólapakki til okkar. Mér fannst það skipta máli því þá er maður einhverju örlitlu nær því að vita eitthvað um manneskjuna sem er að verða til. Svo gátum við farið að ræða nafn en fram að þessu vorum við handviss um að þetta yrði stúlka.

Undirbjugguð þið ykkur eitthvað fyrir fæðinguna? Nei, því miður. Við skráðum okkur á námskeið en þeim var öllum aflýst vegna Covid svo við létum það nægja að lesa bækur.

Var eitthvað sem þér fannst sjálfum erfitt við meðgönguna sjálfa? Í fullkomnum heimi hefði verið heppilegast að skiptast á að ganga með barnið, haha! En í að öllu gamni slepptu þá fann ég mest fyrir mikilli eftirvæntingu.

Hvað fannst þér skemmtilegast að upplifa á meðgöngunni sem maki? Það var gaman að sjá hvað Heiða geislaði á meðgöngunni. Þá var líka magnað að fylgjast með bumbunni stækka, finna hreyfingu og undirbúa komu prinsins. Hreiðurgerðin er hugguleg.

Öll fæðingarnámskeið féllu niður vegna Covid en Benni segist samt sem áður mjög þakklátur fyrir alla þá þjónustu sem þau fengi í ferlinu. Aðsend mynd

Hver var algengasta spurningin sem þú fékkst á meðgöngunni?  Hvernig líður Heiðu? Á þessum tíma vorum við líka ekki komin með íbúð svo spurningin Hvernig gengur að finna íbúð? var líka ansi vinsæl.

Dýrmæt upplifun að hafa hlutverk í fæðingunni

Hvernig leið þér fyrir fæðinguna? Það var svolítið fyndið að ég var að ljúka við að klára að setja upp eldhúsinnréttinguna þegar hann ákvað að koma í heiminn. Góð tímasetning hjá kauða. 

Auðvitað var ég líka stressaður enda veit maður ekkert hvað maður er að fara út í. Ég hugsa samt að ég hafi verið mest stressaður fyrir Heiðu hönd sem átti eftir að fara í gegnum þetta magnaða afrek að koma barninu í heiminn.

Hvernig upplifðir þú þitt hlutverk í fæðingunni? Ég var svo heppinn að það var nýbúið að slaka á reglum vegna Covid svo ég gat verið með í öllu ferlinu. Ég var orðinn ansi pro í því að horfa á línuritið segja Heiðu frá næstu hríðum. Mér fannst ég hafa meira hlutverk en ég bjóst við í fæðingunni sjálfri og það finnst mér ákaflega dýrmæt upplifun.

Hvernig tilfinning var það að sjá barnið í fyrsta skipti? Hún er alveg mögnuð og varla hægt að lýsa í því. Þetta var nokkuð löng fæðing og þegar hann kom var hann örlítið blár og þurfti smá súrefni fyrstu andardrættina. Ég fékk hann síðan á bringuna á meðan Heiða var saumuð og það var mjög notaleg stund. Hann var svo rólegur og grét ekki neitt.

Hvernig gekk að finna nafn á barnið? Það tók ansi langan tíma. Vegna Covid vorum við fram og til baka með þá ákvörðun að halda veislu. Við fengum því alltof of langan tíma til að velta nafninu fyrir okkur. Hann hét Gúri í fjóra mánuði en fékk á endanum nafnið Elmar Ingi þann 3.október.

View this post on Instagram

Elmar Ingi Benediktsson

A post shared by Benedikt Valsson (@bennivals) on

Hversu ánægður ertu með þá fræðslu og aðstoð sem þú fékkst með tilkomu föðurhlutverksins? Það hefði verið frábært að komast á einhver námskeið til að undirbúa sig eitthvað. En líklega verður maður aldrei 100% tilbúinn í þetta. Annars fannst mér öll þjónustan í ferlinu uppá tíu, bæði á spítalanum og í heimaþjónustunni. Öllum spurningum svarað sama hversu skrítnar þær voru.

 Ég á líka góða fjölskyldu og vini sem hafa nýlega gengið í gegnum þetta þannig að það var stutt í viskubrunna.

Hvernig upplifðir þú fyrstu vikurnar sem nýbakaður faðir? Þetta er í smá móðu. Þegar ég hugsa til baka finnst mér þetta svo óraunverulegt og tíminn líður allt í einu alltof hratt. Drengurinn okkar var ,,ungungbarn” í svo alltof stuttan tíma. Í dag er hann fimm mánaða og orðinn svo mikil krakki eitthvað. Fyrstu dagarnir voru krefjandi því við þurftum að fara á vökudeildina þegar hann var þriggja daga gamall þar sem hann var ekki að þyngjast nægjanlega mikið. 

Þrátt fyrir að það sé ógnvekjandi að þurfa að dvelja á vökudeild er þetta samt svo fallegur tími í minningunni. Við vorum þar í tvær nætur öll saman í herbergi og allt gekk vel. Ristabrauð með osti og appelsínuþykknidjús.

Nýbakaðir foreldrar með drenginn sinn, Elmar Inga.Aðsend mynd

Hafði áhyggjur af því að kunna ekki neitt

Tókstu þér fæðingarorlof? Ég tók einn mánuð alveg frá vinnu. En svo vann ég mig hægt af stað og gat verið mikið heima.

Fannst þér það breyta sambandinu ykkar að verða foreldrar? Við höfum verið svo lengi saman, lengi bara tvö. Þess vegna voru viðbrigði að fá nýjan einstakling inn í lífið okkar. En eftir að hann kom er tilfinningin eins og hann hafi alltaf verið með okkur.

Það breytir auðvitað öllu að eignast barn. Að fara í gegnum þetta stóra og flókna ferli með makanum sínum gerði ekkert annað en að styrkja sambandið okkar og fékk mann til að hugsa hvað skiptir máli og hvað ekki.

Einhver skilaboð eða ráðleggingar sem þú hefur til verðandi feðra? Ég hafði áhyggjur af því að kunna ekki neitt, vera ekki nógu tilbúinn af því við komumst ekki á námskeiðin. En þær áhyggjur voru óþarfar. 

Þegar hann kom í heiminn varð maður sjálfkrafa rosa mikill pabbi í hjartanu. Svo er bara að muna að lifa í núinu og njóta, þetta líður alltof hratt.

Tengdar fréttir

„Konur mættu vera blíðari við sjálfa sig eftir meðgöngu“

„Konur mættu vera blíðari við sjálfa sig eftir meðgöngu, klappa sér á bakið fyrir að hafa gengið með barn og ekki vera að stressa sig á því að fara í sama form og þær voru í áður“, segir Gerður Jónsdóttir, íþróttafræðingur, í viðtali við Makamál.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.