Erlent

Ou­attara hlaut 94 prósent at­kvæða

Atli Ísleifsson skrifar
Alassane Ouattara tók við forsetaembættinu í landinu árið 2010.
Alassane Ouattara tók við forsetaembættinu í landinu árið 2010. Getty

Alassane Ouattara, forseti Fílabeinsstrandarinnar, hlaut 94 prósent atkvæða í forsetakosningunum sem fram fóru í landinu um helgina. Stjórnarandstæðingar hvöttu kjósendur í landinu til að sniðganga kosningarnar.

Ouattara tók við forsetaembættinu í landinu árið 2010 og segir BBC frá því að í sumum kjördæmum hafi forsetinn hlotið 99 prósent atkvæða. Þátttaka í forsetakosningunum var nærri 54 prósent, en stjórnlagadómstóll landsins á enn eftir að staðfesta niðurstöður kosninganna.

Stjórnarandstaðan í landinu greindi frá því í morgun að hún myndi setja saman nýja bráðabirgðastjórn yfir landinu sem myndi svo skipuleggja nýjar kosningar.

Helstu frambjóðendur stjórnarandtöðunnar, þeir Pascal Affi N'Guessan og Henri Konan Bédié, höfðu báðir hvatt stuðningsmenn sína til að kjósa ekki. N'Guessan hlaut samkvæmt kjörstjórn eitt prósent atkvæða og Bertin tvö prósent í kosningunum. Fjórði frambjóðandinn, Kouadio Konan Bertin, hlaut sömuleiðis tvö prósent.

Stjórnarandstæðingar sögðu það ekki standast stjórnarskrá að Ouattara byði sig fram til endurkjörs eftir að hafa setið í embætti í tvö kjörtímabil. N'guessan hefur sagt að áframhaldandi valdaseta Ouattara væri líkleg til að hleypa af stað borgarastríði í landinu.

Að minnsta kosti sextán manns hafa látið lífið í þeirri mótmælaöldu sem blossaði upp í ágúst eftir að sá sem Ouattara hafði séð fyrir sér sem arftaki á forsetastólnum, forsætisráðherrann Amadou Gon Coulibaly, lést. Ákvað Ouattara í kjölfarið að bjóða sig aftur fram til endurkjörs.


Tengdar fréttir

Forsætisráðherrann lést eftir ríkisstjórnarfund

Amadou Gon Coulibaly, forsætisráðherra Fílabeinsstrandarinnar, lést eftir að hann veiktist á miðjum ríkisstjórnarfundi í dag. Coulibaly var nýkominn heim úr meðferð vegna hjartveiki í Frakklandi en hann átti að vera forsetaframbjóðandi stjórnarflokksins í forsetakosningum í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×