Innlent

Hefja fram­kvæmdir við ný gatna­mót Borgar­túns og Snorra­brautar

Sylvía Hall skrifar
Eftir framkvæmdirnar verður ekki lengur beygja við enda Borgartúns.
Eftir framkvæmdirnar verður ekki lengur beygja við enda Borgartúns. Reykjavíkurborg

Verktakinn Hellulist ehf. mun koma sér fyrir við enda Borgartúns á morgun, 9. október, þar sem framkvæmdir hefjast við ný gatnamót Borgartúns og Snorrabrautar. Um er að ræða fyrsta skrefið í stærri breytingum á gatnakerfi Snorrabrautar, Borgartúns og Bríetartúns frá Sæbraut að Hverfisgötu við Hlemm.

Áætlað er að framkvæmdum við þennan áfanga ljúki í desember á þessu ári en á meðan þeim stendur verður Borgartúni tímabundið breytt í botnlangagötu milli kínverska sendiráðsins og húss Eflingar.

Þegar framkvæmdum lýkur verður ekki lengur beygja á Borgartúninu heldur verður það framlengt út að Snorrabraut. Í fyrsta áfanga verður opnað fyrir hægri beygjur en göngu- og hjólaleiðir verða einnig endurbættar, að því er fram kemur á vef Reykjavíkurborgar.

Hér má sjá fyrirhugaðar framkvæmdir.Reykjavíkurborg

Í síðari áfanga verður opnað í gegnum miðeyju Snorrabrautar fyrir vinstri beygju úr Borgartúni. Gatnamótin verða ljósastýrð og samstillt við nærliggjandi gatnamót.

„Verkið felst í að grafa og fylla í götu og gangstéttar, grafa og fylla vegna fráveitu- hitaveitu-, háspennu- og götulýsingarlagna, leggja fráveitu-, hitaveitu- og götuljósalagnir, grafa fyrir og leggja ídráttarrör vegna umferðarljósa ásamt tengibrunnum, reisa ljósastólpa, malbika, leggja staðsteyptan kantstein, leggja hellur og ganga frá hliðarsvæðum. Að endingu verður svo gengið frá yfirborði,“ segir á vef Reykjavíkurborgar um framkvæmdirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×