Veiði

Frábær byrjun í Hlíðarvatni

Karl Lúðvíksson skrifar
Þær eru fallegar bleikjurnar úr Hlíðarvatni við Selvog.
Þær eru fallegar bleikjurnar úr Hlíðarvatni við Selvog. Mynd: María Petrína Ingólfsdóttir

Eitt af vinsælustu silungsvötnum á suðvesturhorni landsins er Hlíðarvatn en fyrsti veiðidagurinn  í vatninu var í gær 1. maí.

Það var heldur hvasst framan af degi við vatnið og aðstæður heldur erfiðar en samkvæmt okkar heimildum kviknaði heldur betur í tökunni þegar það fór að lægja þegar leið á daginn. Það var töluvert af uppítöku og bleikjan að taka. Flestar bleikjurnar komu á Krókinn og Taylor sem eru líklega einhverjar bestu flugur til að nota snemmsumars í bleikju enda líkja þær vel eftir því æti sem fiskurinn er að taka á þessum árstíma.

Bleikjurnar sem voru að veiðast í gær voru mest á bilinu 40-50 sm eða tveggja til þriggja punda en vel haldnar. Heildarveiðin úr vatninu í gær náði hátt í 100 bleikjur sem verður að teljast fín veiði miðað við að stærstan part af deginum var illa veiðanlegt vegna veðurs. Besti tíminn í vatninu er framundan svo það verður spennandi að fylgjast með veiðitölum þar á næstunni.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.