Veiði

Hljóðlát aðkoma besta byrjunin

Karl Lúðvíksson skrifar
Laxinn kemur sífellt á óvart
Laxinn kemur sífellt á óvart Mynd: Bjarki Már Jóhannsson

Þegar þú kemur að veiðistað eru nokkur atriði sem þurfa að vera í lagi til að auka líkurnar á því að fá fisk en eitt er þó það sem flestir vanir veiðimenn telja það nauðsynlegasta.

Stöng, hjól, lína og fluga, gefum okkur að öll verkfærin séu í lagi, þá er bara eftir það atriði sem getur skorið úr um það hvort þú setjir í fisk eða ekki og það er aðkoman að veiðistað. Það er stórlega vanmetið að koma hljóðlega að veiðistað og reyna að nálgast hann óséður. Laxfiskar sjá ótrúlega vel það sem er að gerast á yfirborðinu og öll hreyfing getur orðið til þess að styggja laxinn.

Við erum þó alls ekki að fullyrða eitt né neitt enda er það oft þannig að veiðimenn geta komist furðulega nálgæt laxi og bleikju án þess að fiskurinn virðist styggjast neitt og sú hegðun vekur oft jafn mikla furðu og þegar lax verður var við hreyfingu á bakkanum í 25 metra fjarlægð og styggist það mikið að hann hreinlega yfirgefur hylinn eða syndir eins og óður um allt og leggst svo undir grjót.

Það er þó engu að síður vænlegt til árangurs að koma hljóðlega að staðnum keyra ekki með bílinn of nálægt því laxinn finnur titringinn mjög vel þegar bílinn keyrir of nálægt bakkanum. Síðan skaltu byrja ofan við tökustaðinn og í fyrsta rennsli skaltu ekkert vera að vaða út í, þetta á kannski ekki við um alla veiðistaði en ansi marga. Reyndu svo að færa þig rólega niður veiðistaðinn en ekki með busli og hávaða. Ef fiskurinn er styggur eins og oft vill vera á björtum dögum er það 35 ára reynsla sem segir mér að þetta skiptir bara ansi miklu máli, hvort heldur þú ert að veiða í vatni eða við á.

Lax getur þó stundum sýnt af sér hegðun sem er svo undarleg að maður varla trúir því nema sjá það sjálfur. Undirritaður var í fyrra að leiðsegja veiðimanni við veiðistað í Langá á Mýrum og þar var verið að kasta á laxa sem lágu á hefðbundnum tökustað en voru ekki sérstaklega spenntir fyrir flugunni sem var verið að nota. Veiðimaðurinn skipti um flugu og þegar hann sleppti henni datt hún úr lófanum á honum niður við vöðlurnar og þar stökk á hana lax!  Laxinn hafði greinilega lagt í straumröstina sem varð til þar sem við stóðum og komið sér fyrir þar án þess að við yrðum hans varir. Ekki endar þessi saga með neinum herlegheitum. Okkur brá svo mikið báðum að viðbragðið til að festa fluguna almennilega var lélegt og laxinn datt af eftir augnablik. Þessi ágæti breski veiðimaður settist niður og spurði: "what's wrong with your salmon?" Það var fátt um svör.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.