Veiði

Ein sú vinsælasta í urriðann á Þingvöllum

Karl Lúðvíksson skrifar
Black Ghost Olive
Black Ghost Olive Mynd: www.aquaflies.com

Sumar flugur eru virðast vera veiðnari en aðrar og það er margt sem getur gert það að verkum að til dæmis urriði verður sólginn í einhverja ákveðna flugu.

Það hafa margar veiðnar straumflugur komið fram í gegnum tíðina sem eru mikið notaðar og veiðnar eftir því. Stundum er nokkuð gott samhengi milli þess hvað fluga er veiðin saman ber tölur í veiðibókum og hvort hún er veiðin eða er ástæðan fyrir því að hún er mikið notuð af því að hún er veiðin? Þessa umræðu heyrir maður í öllum veiðihúsum á hverju ári og þá er oft verið að rökræða einhverja vinsælustu laxaflugu allra tíma, Rauðan Frances.

En straumflugurnar sem við þekkjum líklega flest og notum mikið eru til dæmis Nobbler, Heimasæta, Grey Ghost, Mickey Finn og Black Ghost svo einhverjar séu nefndar. Allar þykja þær veiðnar og eru notaðar til jafns í bleikju, þá sérstaklega sjóbleikju, og urriða. Það kom þó fram afbrigði af Black Ghost fyrir nokkrum árum sem hefur verið afskaplega vinsæl fluga og þá sérstaklega í vorveiðinni á stóra urriðanum á Þingvöllum. Þessi fluga er Black Ghost Olive og er ýmist hnýtt þyngd, (skull útgáfa á meðfylgjandi mynd) eða óþyngd, allt eftir því hvað á að veiða hana djúpt. Þessi fluga hefur reynst veiðimönnum feykilega vel og ástæðan er sú að hún þykir líkja einna best eftir hornsíli sem er ein aðalfæða urriðans í vatninu. 

Best þykir að leyfa henni að sökkva vel og draga hana svo inn í stuttum hröðum rykkjum með stuttri hvíld á milli en þessi hreyfing líkir eftir hreyfingu hornsílis. Ef það er stór urriði í nágrenninu sem lætur blekkjast er ekki beint hægt að segja að þú fáir töku. Þegar 15-20 punda urriði stekkur á þessa flugu er frekar hægt að líkja því við að kasta flugu við þjóðveginn og festa hana í mótorhjóli sem þýtur framhjá þér á 100 km hraða. Vertu bara viðbúinn og með næga undirlínu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.