Veiði

Skilgreining á veiðiflugu

Karl Lúðvíksson skrifar
Squirmy wormy. Er þetta fluga?
Squirmy wormy. Er þetta fluga?

Þannig er mál með vexti að undirritaður tók þátt í smá umræðu um ákveðna hnýtingu sem var eftirlíking af maðki en hnýtt á öngul fyrir flugu og það er misjanft hvernig veiðimenn skilgreina svona fyrirbæri.

Flugan sem um ræðir er eftirlíking af maðki og snérist umræðan um hvort slík "fluga" væri löglegt agn í veiðiám þar sem aðeins er veitt á flugu. Það einmitt vekur upp spurninguna "hvað er fluga?" og þá í heimi stangveiðimanna auðvitað. Skilin á milli þess hvað er fluga og hvað ekki eru mjög misjöfn hjá mönnum og skoðanirnar margar og mjög ólíkar.

Fluguveiðimenn og þá sérstaklega silingsveiðimenn hafa í áratugi hnýtt flugur sem líkja eftir lirfum flugna og ein af þeim sem geta gefið góða veiði er blóðormur sem er ekkert annað en rauður þráður hnýttur á öngul en sannarlega er þessi fluga skilgreind sem slík. Mobuto, Krókurinn, Alma Rún og margar fleiri eru bara vafinn búkur, oft úr plastefnum, sem eru oft notaðar til andstreymisveiði og þá eru þær að líkja eftir fæðu silungs sem er í ætisleit og tekur fluguna þar af leiðandi af hungri.

En að nota púpur í laxveiði? Púpur eru oft notaðar í laxveiði og geta oft virkað vel þegar aðrar aðferðir reynast ekki gjöfular en það geta líka skapast aðstæður þar sem andstreymisveiði er ekki í þeim anda sem hún er hugsuð og það sást vel í fyrra í vatnsleysinu sem þá hrjáði árnar. Það voru því miður allt of mörg dæmi um að veiðimenn húkkuðu laxa á púpur í andstreymisveiði bæði viljandi og óviljandi. Þessu varð greinarhöfundur því miður of oft vitni að síðasta sumar og það er nákvæmlega ekkert sport í því að draga lax að landi þegar púpan eða flugan situr í ugga eða í kviðnum á laxinum. Sá fiskur tók hana ekki.

Það eru til dæmi þar sem veiðimenn voru staðnir að verki við nákvæmlega þá iðnu að veiða hylji fulla af laxi í litlu vatni, veiddu á þyngdar púpur andstreymis og þegar taumurinn rann undir lax þá var bara kippt í. Þeir sem stunda veiði sem þessum aðferðum eru ekki og verða ekki kallaðir sportveiðimenn.

En aftur að skilgreiningunni á "flugu" og hvað má og hvað ekki í þeim efnum. Ég hef í raun eftir að hafa legið undir feld komist að því að ég skilgreini það sem er hnýtt á öngul með því hugarfari að fiskurinn, hvort sem er lax eða silungur, taki það af vilja sé fluga, það er bara þannig. Erlendis í nokkrum ám er skilgreiningin sú að flugan þarf að hafa væng til að vera fluga annars er hún púpa/nymph og það eru til að mynda nokkrar laxveiðiár sem hreinlega banna veiði á púpu og líka eru til dæmi um að veiði á túpur sé bönnuð sem og notkun sökktauma.

Það fer þá eftir leigutaka og landeigendum hvaða reglur eru settar og þangað til reglur varðandi notkun á sökktaumum, þyngdum túpum og þyngdum púpum eru settar er agn eða "fluga" sem er réttilega hnýtt á öngul til fluguhnýtinga sannarlega leyfð eða í það minnsta ætti að vera það nema annað sé tekið fram. Lykilatriðið er að fiskurinn þarf að vilja agnið og taka það. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.