Erlent

Konunglegt brúðkaup fór fram í kyrrþey

Andri Eysteinsson skrifar
Brúðhjónin ásamt móður brúðarinnar, Söru hertogaynju í brúðkaupi lafði Gabríellu Windsor í fyrra.
Brúðhjónin ásamt móður brúðarinnar, Söru hertogaynju í brúðkaupi lafði Gabríellu Windsor í fyrra. Getty/Max Mumby

Beatrice prinsessa hefur gengið að eiga ítalskan unnusta sinn Edoardo Mapelli Mozzi. Ólíkt öðrum konunglegum brúðkaupum Bretlands voru hátíðarhöld hófleg og var dagsetning brúðkaupsins ekki tilkynnt.

Beatrice, sem er dóttir Andrésar bretaprins og barnabarn Elísabetar II. drottningar, trúlofaðist fasteignamógúlnum Mapelli Mozzi í september síðastliðnum en samband þeirra hófst haustið 2018.

Parið hafði áætlað að ganga í það heilaga í maí síðastliðinn en þurftu að slá þeim áformum á frest vegna faraldurs kórónuveirunnar. Vegna þessarar frestunar og sóttvarnarsjónarmiða var athöfnin smá í sniðum og var eingöngu nánum fjölskyldumeðlimum boðið til athafnarinnar sem fór fram samkvæmt öllum tilmælum yfirvalda.

Faðir brúðarinnar Andrés prins, sem hefur legið undir mikilli gagnrýni í tengslum við mál bandaríska auðjöfursins Jeffrey Epstein, mætti ásamt móður Beatrice, Söru hertogaynju af Jórvík. Einnig voru Elísabet drottning og Filippus prins á meðal gesta.

Systir Beatrice, Eugenie, giftist eiginmanni sínum haustið 2018 og voru 850 gestir í athöfninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×