Viðskipti innlent

Samkeppniseftirlitið segir Pennanum að selja bækur frá Uglu

Andri Eysteinsson skrifar
penninn

Samkeppniseftirlitið telur að sölusynjun Pennans á bókum Uglu útgáfu hafi ekki stuðst við málefnalegar forsendur en með bráðabirgðaákvörðun eftirlitsins er Pennanum gert að taka bækur útgefandans í sölu að nýju. Ákvörðunin mun vera í gildi til áramóta.

Tekin var ákvörðun hjá Pennanum um að selja ekki bækur sem gefnar eru út á hljóðbókastreymi Storytel. Því sendi Penninn allar bækur Uglu til baka og drógust tekjur Uglu því verulega saman.

„Telur eftirlitið sennilegt að með því að senda til baka m.a. söluhæstubækur Uglu í maí sl. og í framhaldi synja um viðskipti við útgáfuna hafi Penninn misnotað markaðsráðandi stöðu sína á smásölumarkaði fyrir bækur,“ segir í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

Í tilkynningunni segir að sölusynjun Pennans hafi ekki stuðst við málefnalegar forsendur og að í ljós hafi verið leitt að útgáfa Uglu á bókum í hljóðbókarformi hafi verið veigamikil ástæða þess að Penninn hætti að selja bækur Uglu.

„Að mati Samkeppniseftirlitsins getur þessi háttsemi Pennans m.a. fælt íslensk bókaforlög frá því að leita nýjunga við sölu á bókum sínum,“ segir í tilkynningunni. Mikilvægt er að bregðast við umræddri synjun strax enda undirbúningur fyrir jólabókaflóðið hafinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×