Innlent

Gamli Herjólfur fer fjórar ferðir í dag

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Herjólfur III.
Herjólfur III. Vísir/vilhelm

Ákveðið hefur verið að Herjólfur III, undanfari Herjólfs sem nú ferjar farþega milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja, sigli fjórar ferðir í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá framkvæmdastjórn Herjólfs sem birt var á Facebook-síðu ferjunnar í morgun.

„Það er mat framkvæmdastjórnar Herjólfs ohf að tryggja þurfi með óyggjandi hætti öruggar samgöngur milli Vestmannaeyja og lands enda er þetta eini þjóðvegurinn sem íbúar og fyrirtæki í Vestmannaeyjum treysta á og er eina samgöngukerfið sem tryggir aðgengi íbúa og lögaðila að nauðsynlegri þjónustu. Greiðar og öruggar samgöngur eru forsenda lífsgæða sem allir landsmenn gera kröfur til,“ segir í tilkynningu.

Undirmenn í áhöfn ferjunnar eru félagsmenn annarra stéttarfélaga en Sjómannafélagi Íslands. Verkfall áhafnar Herjólfs úr röðum félagsins hefur staðið yfir á síðustu dögum og hefur ferjan því undanfarið siglt með hléum. 

Bergi Þorkelssyni, formanni Sjómannafélags Íslands, var ekki kunnugt um að gamli Herjólfur myndi sigla í dag þegar fréttastofa náði tali af honum nú í morgun. Hann sagði þó að við fyrstu sýn virtist þetta brot á lögum um vinnudeilur.

Ferðirnar fjórar eru á dagskrá klukkan 9:30, 12:00, 17 og 19:30 frá Vestmannaeyjum og frá Landeyjahöfn klukkan 10:45, 13:15, 18:15 og 20:45




Fleiri fréttir

Sjá meira


×