Veiði

Rétt og rangt við veitt og sleppt

Karl Lúðvíksson skrifar
Klaus Frimor með hárrétt handbragð við að sleppa stórlaxi í Laxá í Nesi.
Klaus Frimor með hárrétt handbragð við að sleppa stórlaxi í Laxá í Nesi. Mynd: ÁPH
Veiðimenn hafa síðustu ár vaknað til vitundar um að ganga vel um þá auðlind sem vötn og ár landsins eru og þá nauðsyn að ganga vel um þá fiskistofna sem í þeim lifa.

Hluti af þessari bættu umgengni er að veiða og sleppa fiski.  Þetta er ekki óumdeild veiðiaðferð en bæði þeir sem aðhyllast veitt og sleppt og þeir sem skilja ekki með nokkru móti af hverju að þeirra mati veiðimenn "leika sér með bráðina og kvelja hana" hafa haft uppi umræðu og rök sem er á köflum hvimleið.  Á mörgum veiðisvæðum hafa veiðimenn verið beðnir um að hlífa fiskinum og er þá sleppiskylda á öllum fiski en svo er hóflegur kvóti annars staðar.  Svo má hirða allt víða og þeir sem vilja gera það hafa þá val um að veiða á slíkum svæðum og þeir sem vilja veiða og sleppa sækja þá í þau svæði þar sem sú venja er höfð.

Rangfærslur varðandi veitt og sleppt eru þær að halda því fram að fiskurinn drepist eftir átökin þegar honum hefur verið sleppt aftur.  Ef þetta væri staðreynd væru þær ár þar sem laxi er sleppt fullar af dauðum fiski á besta veiðitímanum en það er bara ekki þannig og sumir laxar eru að veiðast aftur og aftur.  Eins hefur þessi nálgun a viðkvæmum svæðum svo greinilega borið árangur í t.d. endurreisn fjölda stórlaxa og nægir þar að nefna t.d. Laxá í Nesi, Víðidalsá og Vatnsdalsá en þar hefur hlutfall stórlaxa aukist mikið eftir að sleppiskylda var sett á að mestu, að vísu að öllu í Nesi. Annað gott dæmi er urriðinn í Þingvallavatni sem hefur heldur betur komið aftur eftir að hafa næstum því verið veiddur út á gaddinn.

Veiðimenn sem síðan vilja hirða afla þar sem það má, koma með í soðið eða fara með í reyk, grafa, grilla eða hvaða aðferð sem menn kjósa helst til að njóta bráðar, hafa stundum setið undir ámæli fyrir að hirða fisk sér til matar.  Ef veiðimaður á annað borð fylgir þeim reglum sem eru viðhafðar á hverju vatnasvæði varðandi agn, kvóta, sleppa stórum fiski og umgengni er honum bara alveg frjálst að gera það án þess að þurfa sitja undir hvössum orðum þeirra sem vilja sleppa öllum fiski.  Bæði sjónarmið eiga fyllilega rétt á sér og báðar fylkingar þurfa bara að bera virðingu fyrir því að svo lengi sem reglum veiðisvæða er fylgt og umgengni við svæðin er góð geta allir veitt í friði og notið þess að sleppa eða skella einum laxi á grillið.

Það var nú ekki ástæðan fyrir því að henda í þennan pistil að biðja veiðimenn að bera virðingu fyrir ólíkum skoðunum í þessu máli heldur aðeins að skerpa á betri aðferðum við að veiða og sleppa og ástæðan fyrir því eru nýleg myndskeið af samfélagsmiðlum þar sem heldur harkalega er farið með fiskinn.  Hér eru nokkur atriði sem veiðimenn þurfa að hafa í huga ef það á að sleppa fiski:

1. Reyndu að taka fiskinn ekki mikið upp úr vatninu og ALLS EKKI leggja hann á sand eða grasbakka.

2. Ef þú ætlar að mynda fiskinn láttu hann liggja í vatninu en EKKI á bakkanum og ef þú ert með félaga sem ætlar að mynda fyrir þig haltu fiskinum í vatninu og lyftu honum upp þegar myndasmiðurinn er tilbúinn EKKI FYRR.

3. EKKI halda fiskinum lengi upp úr vatninu.

4. EKKI fara með fisk upp á bakkann ef þú ætlar að sleppa honum, sama þótt myndin verði flottari.

5. Notaðu mjúkan háf.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.