Erlent

Fórnarlamb hópnauðgunnar hlaut fangelsisdóm

Áfrýjunardómstóll í Saudi-Arabíu hefur tvöfaldað fjölda svipuhögga og bætt fangelsisvist við refsingu til handa fórnarlambi hópnauðgunnar þar í landi. Stúlkan var upphaflega ákærð fyrir brot á lögum landsins um aðskilnað kynjanna en hún var farþegi í bifreið manns sem ekki er skyldur henni er hópnauðgunin átti sér stað.

Hin 19 ára gamla stúlka tilheyrir shia-minnihlutanum í landinu og henni var hópnauðgað af 7 mönnum í austurhluta landsins fyrir hálfu öðru ári síðan en þeir tilheyra sunni-meirihluta landsins. Mennirnir voru á sínum tíma dæmdir sekir um athæfið og hlutu eins til fimm ára fangelsisdóma. Samkvæmt lögum má beita dauðarefsingu við nauðgun í Saudi-Arabíu

Áfrýjunardómstólinn kemst að þeirri niðurstöðu að stúlkan hafi ætlað sér að hafa áhrif á framgang réttvísinnar með því að áfrýja máli sínu. Af þeim sökum var hún dæmd til að þola 200 svipuhögg í stað 90 og sæta þar að auki sex mánaða fangelsisvist. Samtímis ákvað áfrýjunardómstóllinn að tvöfalda fangelsisdóma þeirra sem stóðu að nauðguninni.

Lögmaður stúlkunnar var dæmdur frá málinu, hann hefur misst lögfræðiréttindi sín og þarf væntanlega sjálfur að sæta dómsmáli fyrir að hafa varið hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×