Atvinnulíf

Foreldrar að klúðra leiðtogatækifærum barna sinna

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Þessir foreldrar gefa barninu sínu of mikinn tíma og vilja vera vinur þess.
Þessir foreldrar gefa barninu sínu of mikinn tíma og vilja vera vinur þess. Vísir/Vilhelm

Rannsóknir sýna að foreldrar sem ofvernda börnin sín eru óafvitandi að draga úr tækifærum þeirra til að gegna leiðtogahlutverki síðar á ævinni. Afleiðingar uppeldisins eru meðal annars þær að þegar barnið er orðið fullorðið hefur það ekki nægilega trú á sinni eigin getu, á erfitt með að takast á við erfiðar aðstæður, sjálfstraustið er of lítið og hæfnin til að leiða aðra minni en annars hefði þurft að vera. 

Já, tækifærin geta hreinlega tapast vegna mömmu og pabba!

En hvað einkennir þessa foreldra?

Dr. Judith Locke er klínískur sálfræðingur og sérfræðingur í velferð barna. Hún lýsir þessum foreldrum í umfjöllun BBC á eftirfarandi hátt:

  • Þetta eru foreldrarnir sem eru fljótir til að hlaupa til ef eitthvað bjátar á. Þeir trúa því að barnið þeirra hafi alltaf rétt fyrir sér.
  • Þessir foreldrar gera allt sem þeir geta fyrir barnið sitt (frekar en að trúa því sjálfir að barnið geti bjargað sér sjálft).
  • Þessum foreldrum finnst í raun að aðrir ættu að beygja sig undir þarfir barnsins síns. Þetta eru krefjandi foreldrar og með mjög miklar væntingar um frammistöðu barnsins síns.
  • Þessir foreldrar gefa barninu sínu mjög mikinn tíma, vilja vera vinur þeirra og helst í stöðugu sambandi við það.

Dæmi um rannsóknir

Áhrif uppeldis á leiðtogafærni barna á fullorðinsárum hefur verið rannsakað nokkuð. Í fyrrgreindri umfjöllun BBC er sagt frá rannsókn sem gerð var í Bejing í Kína. Spurningarkönnun var lögð fyrir 1500 nemendur á unglingastigi. 

Meðal spurninga sem nemendur svöruðu voru spurningar um hvort foreldrar þeirra væru vanir að fylgja þeim eftir í einu og öllu eða hvort foreldrar þeirra væru gjarnir á að stíga inn í aðstæður þegar eitthvað bjátaði á. 

Þá var spurt um sjálfsöryggi og hvaða trú nemendur hefðu á sinni eigin leiðtogafærni. 

Könnun var jafnframt lögð fyrir foreldra nemenda og kennara þeirra og þar reynt að draga fram hvaða trú foreldrar og kennarar hefðu á leiðtogafærni unglinganna.

Börn og ungmenni vöktu mikla athygli á síðasta ári í baráttu sinni fyrir betri framtíð. Aðgerðarleysi í loftslagsmálum var mótmælt á hverjum föstudegi.Vísir/Vilhelm

Niðurstöður sýndu skýr merki þess að þeir nemendur sem voru ofverndaðir af foreldrum sínum, voru mun ólíklegri til að vera í einhverju leiðtogahlutverki. Til dæmis í hópaverkefnum, í bekknum eða einhverju öðru skólatengdu starfi. Einkenni þessara barna var einnig lágt sjálfsmat.

Þá vakti það athygli að þessi börn þóttu af öðrum ólíklegri til að geta staðið undir leiðtogahlutverki.

Svipuð rannsókn var framkvæmd í Háskólanum í Flórída í Bandaríkjunum. Þar voru um 500 nemendur þátttakendur. Niðurstöður sýndu ótvírætt að nemendur sem voru of verndaðir af foreldrum sínum, voru með minna sjálfstraust en aðrir og þar með ólíklegri til að geta gegnt leiðtogahlutverki.

Það sama sýndi sambærileg rannsókn sem framkvæmd var á nemendum í háskólanum í Miami í Flórída.

Vísir/Vilhelm

Hvernig getur ungt fólk snúið þessari þróun við?

Locke segist sannfærð um að fullt af ungu fólki er að samsvara sig við þessar niðurstöður. Það viti að í æsku voru þau ofvernduð af foreldrum og skynji að uppeldið er nú að draga úr tækifærum þeirra í starfi.

Mikilvægast fyrir þennan hóp að falla ekki í gryfju reiði og gremju en í rannsóknum má sjá merki þess að neikvætt viðhorf gagnvart foreldrum sínum er nokkuð algengt á meðal einstaklinga sem telja foreldra hafa ofverndað sig.

Locke segir hins vegar að enginn þurfi að efast um að foreldrunum hafi í rauninni gengið gott eitt til. Aðalmálið er að huga að því, hvernig er hægt að snúa vörn í sókn. Það sé vel mögulegt með smá vinnu og fyrirhöfn.

Það fyrsta sem þessi hópur þurfi að gera er að mynda ákveðna fjarlægð við foreldra sína og ná betri tökum á sínu eigin lífi. Oft sé staðan sú að foreldrar þessara einstaklinga séu enn mikið að skipta sér af.

Með því að öðlast sjálfstæði og óhæði frá foreldrum sínum, þjálfa viðkomandi einstaklingar sig í eigin færni til að taka ákvarðanir, að takast á við aðstæður og efla sjálfsöryggi sitt.

Í vinnunni er einnig hægt að vinna í smá breytingum. Eitt er til dæmis að kalla oftar eftir viðbrögðum og endurgjöf frá samstarfsfélögum. Þar með talið að læra að takast á við gagnrýni og vera opin fyrir hugmyndum annarra. Þetta segir Locke mikilvægt því ein af afleiðingum of verndunar í uppeldi er að stundum hefur fólki verið gert of hátt undir höfði fyrir eiginleika og getu sem ekki er innistæða fyrir. Afleiðingin sé í raun röng sjálfsmynd.

Ekkert breytist þó á einnig nóttu segir Locke. Aðalmálið er að hefja vinnuna því aukið sjálfstæði og meira sjálfsöryggi verður alltaf af hinu góða. Áður en fólk veit af er það jafnvel farið að sjá sjálfan sig í hlutverki yfirmanns.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×