Jól

Skreytir húsið með 600 jólasveinum 

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Birna Óskarsdóttir er fædd á Akureyri en hefur búið á Ólafsfirði í 30 ár.
Birna Óskarsdóttir er fædd á Akureyri en hefur búið á Ólafsfirði í 30 ár. Auðunn Níelsson
Heima hjá Birnu Óskars­­dóttur á Ólafs­firði hafa hátt í 600 jólasveinar komið sér huggulega fyrir og aðrir þrettán munu líkast til bætast við fyrir jól.

Ég hef alltaf verið heilluð af jólasveinum og finnst þeir kátir og skemmtilegir karlar,“ segir Birna sem hefur á undanförnum árum sankað að sér jólasveinum frá öllum heimshornum. 

Jólasveinaveisla í fallega skreyttum stofuglugganum.
„Hér á Ólafsfirði býr líka Egill Sigvaldason sem er mun stórtækari jólasveinasafnari en ég og smitaði mig af jólasveinasöfnunaráráttunni. Sá fyrsti sem ég keypti var ekki hár í loftinu en smám saman stækkaði sveinki og nú eru sumir sveinanna nánast mannhæðarháir,“ segir Birna sem sækir flesta sína jólasveina til Noregs þar sem dóttir hennar, Sigríður Þóra, býr og er vakin og sofin yfir nýjum jólasveinum fyrir móður sína.

„Dóttir mín er dugleg að senda mér myndir þegar hún fer á flakk og þá tryllist ég alveg hér heima og bið hana að taka jólasveinana frá. Þegar maður á orðið jafn stórt safn og raun ber vitni er orðið erfitt að finna nýjar útgáfur hér heima. Ég hef farið landshorna á milli í leit að nýjum jólasveinum en sé oftast þá sömu og er því farin að leita út fyrir landsteinana,“ segir Birna sem ætlar í jólasveinaleiðangur til Noregs fyrir þessi jól enda segir hún úrvalið ríkulegt hjá frændum okkar, Norðmönnum.

„Í Noregi sjást reyndar engin ummerki um íslensku jólasveinana þrettán en úrvalið er endalaust af Santa Claus og þessum hefðbundna ameríska. Ég er því hvergi hætt að safna og ætla að sækja eina fimm til tíu þegar ég fer utan fyrir jól enda hef ég nóg pláss enn,“ segir Birna og skellir upp úr.

Fylgd jólasveinanna upp stigann hjá Birnu er hátíðleg.
Maðurinn er ekkert skárri

Dásamlegir sveinkar og jólakerlingar fylla híbýli Birnu þar sem hún býr með eiginmanni sínum, Hilmari Kristjánssyni og syni þeirra, Hákoni.

„Hann Hilmar minn er ekkert betri en ég og verri ef eitthvað er,“ segir Birna og hlær dátt. „Hann er villtur og trylltur í jólasveinaleit í öllum búðum og sonurinn er að verða svolítið heillaður af þessu líka, nú í Belgíu með augun opin fyrir nýjum jólasveinum,“ segir Birna sem hefur ekki nákvæma tölu á jólasveinaflokknum heima.

Hvað er annað hægt en að kætast meðal svo sætra sveina?
„Þegar allt er talið eru jólasveinarnir á milli 500 og 600 talsins og enginn er eins. Ég stilli þeim öllum upp fyrir 1. nóvember því ég vil fá að njóta þeirra lengi ár hvert og dunda mér við þetta fram að jólum. Svo tek ég allt niður á þrettándanum þegar jólin eru búin,“ upplýsir Birna sem er ekki nema einn til tvo daga að setja allan jólasveinaskarann á sinn stað.

„Víst hafa sumir jólasveinanna verið fokdýrir en ég er þó ekkert að verða gjaldþrota af öllum kaupunum. Ég á svo afmæli um hásumarið og fæ mjög oft jólasveina í afmælisgjöf því margir hugsa til mín og koma færandi hendi,“ segir Birna sæl á meðal hundraða jólasveina.

Allir fá súkkulaði og kleinur

Á Ólafsfirði kannast margir við jólasveinasafn Birnu þótt ekki sé það opinbert safn.

„Ég prófaði eitt sinn að vera með opið hús á jóladegi hér í bænum en húsið er ekki stórt og varla við komandi að taka á móti mörgum í einu. Hins vegar eru allir velkomnir að koma þegar þeir vilja og alltaf nokkrir sem koma með börnin sín að skoða jólasveinasafnið fyrir hver jól. Ég hef bara gaman af því og ég hef fyrir sið að gefa öllum heitt súkkulaði og kleinur,“ segir Birna sem er mikið til hætt að baka smákökur til heimilisins enda vinnur hún í bakaríinu á Siglufirði.

Nöfn íslensku sveinanna eru flestum hjartfólgin. MYNDIR/AUÐUNN NÍELSSON
„Mínir uppáhalds jólasveinar í safninu eru jólasveinahjón sem ég keypti í Danmörku um árið og rogaðist með heim á öxlunum í svörtum plastpoka. Ég er orðin fræg fyrir það í tollinum að bera stóra jólasveina á bakinu og þeir hlæja bara að mér þar,“ segir Birna kát í prúðri jólasveinafjöld.

„Við hjónin erum mikil jólabörn og getum yfirleitt ekki beðið eftir að byrja að skreyta og setja upp jólaljósin í nóvember. Það er ekki enn komið að því að við þurfum að skáskjótast á milli jólasveina heima; ég á enn til aukaherbergi fyrir fleiri sveina og get bætt við í eldhúsinu. Svefnherbergið er líka jólasveinalaust en ég fer sennilega næst í það að troða þeim upp í rúm,“ segir hún og skellihlær.






×