Erlent

Tug­þúsundir mót­mæla nýjum hegningar­lögum

Davíð Stefánsson skrifar
Frá mótmælunum í Jakarta.
Frá mótmælunum í Jakarta. Getty/Ed Wray
Tugir þúsunda námsmanna víðs vegar um Indónesíu mótmæltu í gær, þriðja daginn í röð, fyrirhugaðri lagasetningu nýrra hegningarlaga, sem bannar kynlíf fyrir hjónaband og að móðga forseta landsins.

Lögreglan skaut táragasi og beitti vatnsbyssum á mótmælendur fyrir utan þinghús Indónesíu. Lögreglustjóri í höfuðborginni Djakarta sagði að 265 námsmenn og 39 lögreglumenn hefðu særst í átökunum í gær. Alls voru 94 handteknir í borginni í átökum sem stóðu fram á nótt.

Þetta eru ein mestu mótmæli stúdenta frá árinu 1998 en sá órói leiddi til falls Suharto, þáverandi forseta landsins.

Námsmennirnir mótmæla fyrirhuguðum lögum sem banna kynlíf fyrir hjónaband og hertum viðurlögum við fóstureyðingum. Einnig er mótmælt banni við að móðga forseta landsins og lagaákvæðum um fjármálamisferli sem talin eru veikja getu landsins til að takast á við spillingu. Þá hafa námsmennirnir krafist aukinna forvarna gegn skógareldum sem valdið hafa miklu mistri og mengun í landinu að undanförnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×