Veiði

Flugu kastað í Kanada

Karl Lúðvíksson skrifar
Tekist á við geddu í Kanada
Tekist á við geddu í Kanada Mynd: Jeremy Kwiatkoski
Barri á froskaflugu
Það er víðar hægt að veiða en á Íslandi og það er eiginlega skylda þegar veiðimenn ferðast að hafa með sér stöng svona bara ef það væri veiði í grennd.Kanada er land endalausra skóga og veiðisvæða og undirritaður er þar staddur eins og er og það var aldrei spurning um annað en að hafa með sér flugustöng og fara á svæði sem ég heimsótti árið 2016 með sama vini, Jeremy Kwiatkoski, sem leiddi mig um þetta magnaða svæði það ár.Þetta svæði er um það bil 300 km norður af Toronto þar sem endalausar ár ög vötn felast innan um ósnertan skóg og það er óhætt að segja að það sé smá fyrirhöfn að komast þangað. Fyrir utan langan akstur þarf að fara niður ársvæði á kanó í um það bil klukkutíma áður en veiði hefst. Hér er skógurinn þéttur svo það er nokkuð vonlaust að ganga en að sama skapi ekki góð hugmynd því hér eru birnir, fjallaljón, sléttuúlfar og skógarkettir sem eru oft heldur skapbráð þegar þau rekast á menn í skóginum svo örugga leiðin er að fara frá þeim stað þar sem bílinn er skilinn eftir og þaðan niður litla á á kanó. Það er svo ekki ofsögum sagt að það sé ekki auðvelt að komast niður ánna en tvær stórar bjórstíflur gerðu það að verkum að það þarf að bera kanóinn framhjá þeim á landi, hljóðlega en hratt, þú veist, til að vekja ekki birnina.Þegar komið er niður á vatnasvæðið hefst leitin að geddu og barra sem er meginveiðin og það tókst strax á fyrsta blett sem var kastað á. Í 28 stiga hita, brakandi blíðu og logni lönduðum við um það bið 40 fiskum á fimm tímum. Geddurnar flestar um 50-60 sm og barrarnir um það bil 1-3 kíló. Þessar tvær tegundir eru í einu orði klikkaðar að taka á flugu og tökurnar eru svo ofsafengnar að manni bregður í hvert skipti. Það var aðeins notast við flotlínu og yfirborðsflugur sem líkjast froskum sem eru strippaðar hratt eftir yfirborðinu. Geddann tekur oft alveg upp við bátinn og rýkur svo út að undirlínu. Miðað við hvað margir Íslendingar ferðast til Kanada á hverju ári er furðulegt að heyra ekki af fleirum sem prófa að veiða þarna því það er feykna mikil veiði allt umhevrfis Toronto og margir sem bjóða upp á dagsferðir þaðan. Ég get í það minnsta sagt að þetta er alveg þess virði.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.