Veiði

Laxarnir streyma upp á stöng úr Urriðafossi

Birna Dröfn Jónasdóttir skrifar
Magnús og Gunnar Gunnarssynir voru við veiðar í Urriðafossi, Gabríel Róbertsson hélt á stönginni þegar laxinn tók agnið.
Magnús og Gunnar Gunnarssynir voru við veiðar í Urriðafossi, Gabríel Róbertsson hélt á stönginni þegar laxinn tók agnið. Fréttablaðið/Anton Brink

„Það gerðist bara allt í einu fyrir fjórum árum að lax fór að veiðast á stöng hér í ánni,“ segir Einar Haraldsson á Urriðafossi.

„Enginn veit af hverju þetta breyttist allt í einu en ég hef þó kenningar um það,“ segir Einar við Fréttablaðið um stangaveiðiævintýrið í Þjórsá. Ástæðan sé þríþætt.

„Hlýnandi veðurfar alveg frá aldamótum þýðir að ísmyndun í ánni er minni og þar af leiðandi hafa afföllin af seiðunum verið miklu minni. Í öðru lagi var opnaður fiskistigi árið 1995 og hefur ganga fisks verið að aukast og þannig framleiðsla árinnar á seiðum og í þriðja lagi eru sennilega hagstæð skilyrði í sjónum.“

Einar Haraldsson bóndi og netaveiði við Urriðafoss í Þjórsá.

Einar hefur lengi veitt lax í net í Þjórsá og segir að veiði í net sé mikil vinna.

„Ég þarf að fara á báti og vitja um netið fjórum sinnum á dag, svo þarf ég að bera allan fisk sem ég veiði í poka upp skriðu frá ánni. Síðan daginn eftir þarf ég að koma honum á markað til Reykjavíkur. Ég sel hann í Melabúðina.“

Eftir að laxinn fór að veiðast á stöng við Urriðafoss hefur Einar leigt út hluta hennar og eru þar seld veiðileyfi fyrir fjórar stangir á dag.

„Það er uppselt alveg fram í ágúst og á meðan þetta gengur svona vel þá höldum við þessu hiklaust áfram,“ segir Einar.

„Ég hélt eftir einu neti sem er um það bil kílómetra fyrir neðan þetta svæði. Þar eru minni líkur á að hægt sé að veiða á stöng en ef það breytist er ég alveg opinn fyrir því að taka upp netið,“ segir Einar sem hefur gaman af þeim breytingum sem hafa átt sér stað í ánni.

Mikill fiskur er í Þjórsá og er hún í augnablikinu aflamesta laxveiðiá landsins samkvæmt Landssambandi veiðifélaga. Nýjustu tölur á vef sambandsins frá því á fimmtudag í síðustu viku sýndu að veiðst höfðu 502 laxar á stöng í Urriðafossi í sumar. Næst á listanum var Eystri-Rangá þar sem veiðst hafa 405 laxar á þrefalt fleiri stangir.

„Það er gríðarlega mikill fiskur í ánni, en svo er það líka þannig að það gengur illa í mörgum öðrum ám. Vatnsmagnið í Þjórsá er alltaf mikið en flestar laxveiðiár eru svo vatnsskiptar að fiskurinn á erfitt með að ganga í þær. Það er bara þannig eftir þurrka í allt sumar,“ segir Einar Haraldsson. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.