Veiði

Ekki stórt vatn en fín veiði

Karl Lúðvíksson skrifar
Það er fullt af urriða í Sléttuhlíðarvatni
Það er fullt af urriða í Sléttuhlíðarvatni
Það styttist í fyrstu stóru ferðahelgi ársins og við hér á Veiðivísi ætlum þess vegna að skoða nokkur skemmtileg vötn úti á landi sem er tilvalið að kíkja í.Við tökum fyrir eitt vatn í einu og við ætlum að byrja á einu litlu og skemmtilegu vatni á Tröllaskaga sem heitir Sléttuhlíðarvatn. Þetta vatn lætur mjög lítið fyrir sér fara og undirritaður keyrði framhjá því á hverju ári á leið sinni í Fljótá og datt aldrei í hug að kasta færi í það. Mörgum árum seinna þegar tækifæri gafst var tekinn smá bíltúr frá Akureyri gagngert til að prófa þetta litla vatn.Það er óhætt að segja að þessi fyrsta ferð hafi komið verulega á óvart. Veiðin var mjög góð en fiskurinn var ekkert sérstaklega stór en alsveg passlegur á pönnuna en mest af honum var um 1-2 pund og allt urriði. Þarna veiðist líka bleikja sem talið er að sé að mestu sjóbleikja sem gengur upp í vatnið úr ánni sem úr því rennur. Vatnið er hluti af Veiðikortinu og sá partur af því sem heyrir undir það er stærsti parturinn af austurbakkanum. Það veiðsit alls staðar. Flestir koma sér fyrir á tanganum svo til beint fyrir neðan bæinn og þar um kring. Það þarf ekki að vaða mikið eða nokkuð því fiskurinn er oftar en ekki að taka alveg upp við land. Eftir að hafa prófað allt þá get ég með nokkurri vissu sagt að langsamlega best veiðist á flugu þarna og svo litla spinnera. Fiskurinn er gráðugur og tekur svo til allt en litríkar flugur voru sterkar en púpurnar líka. Ekki nota sökkenda og ef þú ætlar að nota beitu alls ekki nota sökku. Þegar líður á tímabilið er mikið af gróðri í vatninu og hann getur gert manni lífið oft heldur leitt. Þetta er einstaklega barnvænt vatn því ef þú ert með lítla veiðikrakka með þér láttu þau kasta spinner eða nota flotholt og flugu. Svo lengi sem það er ágætt veður fá allir eiginlega alltaf fisk. En þá er það veðrið. Það er kalt þarna í norðanátt og veiðin léleg ef það blæs. En á björtum og hlýjum dögum er veiðin frábær flesta daga. Alls ekki gleyma að hafa flugnanet og flugnasprey. Það er mikil fluga við vatnið. Þú getur lesið meira um Sléttuhlíðarvatn hér.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.